9.5 C
Selfoss

Svör við opnu bréfi um hagræðingaraðgerðir í Sveitarfélaginu Árborg

Vinsælast

Bragi Bjarnason, Formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg.

Tinna Björg Kristinsdóttir, íbúi í Sveitarfélaginu Árborg skrifaði grein fyrir stuttu og bar upp nokkrar spurningar í tengslum við hagræðingaraðgerðir sveitarfélagsins sem tengjast opnunartíma sundlauga Árborgar.

Sveitarfélagið Árborg hefur undanfarna mánuði staðið í erfiðum hagræðingararðgerðum sem m.a. leiddu til uppsagna starfsfólks og lækkuðu starfshlutfalli, frestunar á framkvæmdum, lækkunar á almennum rekstrarkostnaði og skerts opnunartíma einstaka þjónustustofnana. Þessi endurskipulagning á rekstri sveitarfélagsins stendur enn yfir og felur í sér bæði krefjandi hagræðingu með áherslu á minni kostnað, sem og ferla sem leiða til aukinna tekna fyrir sveitarfélagið. Undirritaður skilur vel að ekki  sé sátt um allar þær aðgerðir sem búið er að fara í eða verður farið í á næstu mánuðum enda geta þær snert okkur misjafnlega mikið. Það er samt jákvætt að íbúar sýna málefnum samfélagsins okkar áhuga og vil ég reyna með þessum pistli að svara þeim spurningum og vangaveltum sem Tinna Björg lagði fram.

  1. Hver er sparnaðurinn við lokun sundlaugarinnar á Stokkseyri?

Þegar allar hagræðingar eru taldar saman fyrir sundlaug Stokkseyrar þá eru þær um 20 milljónir króna á ársgrundvelli.  Er þar um að ræða laun og annan rekstrarkostnað.

  1. Hvernig ætlar sveitarstjórnin að stuðla að auknum tækifærum til heilsueflingar fyrir íbúa á Eyrarbakka og Stokkseyri í vetur?

Bæjarstjórn Árborgar hyggst eftir fremsta megni auka tækifæri til fjölbreyttrar heilsueflingar í öllu sveitarfélaginu. Kostir og leiðir til þess geta verið mismunandi eftir svæðum  og í einhverjum tilfellum í samstarfi við félagasamtök eða einkaaðila svo dæmi séu tekin. Það er kostur að við njótum þess hérna í Árborg  að alla jafna er stutt á milli staða og samgöngur frekar góðar. Hvort sem fólk hyggst njóta þess að fara í fjöruferð, frisbígolf, fjallgöngu, sund, opinn íþróttatíma, heilsueflingu 60+, skógarferð, fuglaskoðun eða annað þá hafa allir íbúar, óháð búsetu, aðgang að opnum svæðum, leikvöllum og þeirri þjónustu sem er í boði hverju sinni. Markmiðið er síðan að geta aukið enn frekar við heilsueflandi valkosti, svo sem fleiri opna íþróttatíma, lengri opnunartíma sundlauga og fleiri göngu-, hjóla- og reiðstígar. Á þessum tímapunkti væri óábyrgt að lofa einhverjum ákveðnum dagsetningum en við viljum alltaf vinna að því að gera betur.

  1. Einmannaleiki, kvíði og þunglyndi er ein helsta ógn í íslensku samfélagi. Hver er forvarnarstefna sveitarfélagsins í þeim málefnum og nær sú stefna jafnt yfir íbúa sveitarfélagsins?

Forvarnarstefna Sveitarfélagsins Árborgar er sem stendur í endurskoðun og eru þetta mikilvægir þættir sem ásamt öðrum þarf að skýra vel í nýrri stefnu. Forvarnarteymi Árborgar sem í sitja fulltrúar frá fjölskyldusviði, leik- og grunnskólum, heilbrigðisþjónustu, lögreglu og foreldrafélögum grunnskólanna vinnur að almennu forvarnarstarfi fyrir alla íbúa í sveitarfélaginu. Teymið skipuleggur m.a. forvarnardagskrá fyrir börn, unglinga og foreldra sem fer fram innan skólanna, í félagsmiðstöð, á opnum fyrirlestrum og á netinu. Þar hefur m.a. farið fram fræðsla um ofangreinda þætti ásamt fleiru. Hvet ég íbúa sem hafa ábendingar um áhugaverða fræðslu eða málefni að senda á forvarnarteymið, á netfangið forvarnir@arborg.is.

  1. Jafnrétti snýst um meira en leiðréttingu á launamun kynjanna. Jafnréttisáætlun Árborgar kemur eingöngu inn á það, enda krefur SÍS sveitarfélög ekki um neitt annað. Kemur til greina að sveitarfélagið semji nýjan lið innan stefnunnar í þeim tilgangi að standa vörð um jafnrétti íbúa óháð búsetu?

Stefnu sveitarfélagsins þarf að uppfæra reglulega í takt við breyttar áherslur og verkefni. Á heildina litið tel ég að sveitarfélagið sé að vinna að þeirri nálgun að allir íbúar hafi aðgang að grunnþjónustu. Við íbúar höfum svo mögulega mismunandi skoðun á því hvað teljist eðlilegt aðgengi að grunnþjónustu. Er það að vera í ákveðnu göngufæri við alla þjónustu, geta nýtt almenningssamgöngur, keyra að hámarki 15 mínútur eða annar mælikvarði sem ætti að nota til að mæla út jafnt aðgengi í stóru sveitarfélagi sem býður upp á fjölbreytta búsetukosti.

Jafnfréttisáætlun Sveitarfélagsins Árborgar tekur á jafnrétti kynjanna í víðum skilningi og er þar líka horft til m.a. aldurs, þjóðernis og fleira. Launamál, skipan í ráð og nefndir, skóla- og frístundamál eru meðal þeirra atriða sem fjallað er um í jafnréttisáætluninni. Þar, líkt og í öðrum verkefnum eigum við að horfa eftir tækifærum til að gera betur og vera með mælikvarða sem geta hjálpað til við að sýna árangurinn. Hvort það eigi að horfa sérstaklega til búsetu í jafnréttisáætlun er gott að velta upp í endurskoðun áætlunarinnar en sú vinna er í gangi hjá sveitarfélaginu.

  1. Innan sveitarfélagsins starfar fjölskyldusvið sem hefur það sameiginlega markmið að veita börnum og foreldrum gæðaþjónustu í þeim tilgangi að stuðla að farsæld barna. Fjárfesting til framtíðar. Ásmundur Einar Daðasona, mennta- og barnamálaráðherra, hefur haft orð á því á opinberum vettvangi hversu öflugt fjölskyldusvið Árborgar er í innleiðingu nýrra farsældarlaga og er það vel. Í því samhengi langar mig að spyrja hvort að sveitarstjórnin telji sig ganga í takt við fjölskyldusvið sitt og hvort hún telji sig stuðla jafnt að farsæld barna innan sveitarfélagsins og þá með hvaða hætti?

Það er rétt að fjölskyldusvið Árborgar hefur verið leiðandi undanfarin ár við innleiðingu farsældarlaganna og ráðherra talað um það opinberlega. Það er mjög jákvætt og hvetur okkur sem sveitarfélag enn frekar til dáða. Þó mörg skref séu eftir þá er búið að samræma hluta þjónustunnar vel og samvinna m.a. leik- og grunnskóla, velferðar- og frístundaþjónustu mjög góð sem á að skila sér í markvissari þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Bæjarstjórn Árborgar styður við innleiðingu farsældarlaganna og gengur sannarlega í takt við þá stefnu. Það má þó alls ekki gleymast að fjárhagslegar aðstæður sveitarfélagsins hafa kallað á mjög erfiðar aðgerðir sem í einhverjum tilfella hafa dregið úr eða breytt einstaka þjónustuþáttum en mikill vilji er til að finna farsæla lausn.

  1. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims og er Ísland eitt þeirra ríkja sem hefur fullgilt sáttmálann og lögfest. Með því tengjumst við mikilvægum böndum við önnur aðildarríki sáttmálans um að stuðla að jöfnum réttindum og velferð allra barna. Hvert aðildarríki skal skila inn skýrslu um hvernig sáttmálanum er framfylgt til sérstakrar Barnaréttarnefndar. Í kjölfarið er fulltrúum stjórnvalda boðið í fyrirtöku til nefndarinnar þar sem þeim eru kynntar niðurstöður hennar út frá skýrslunni. Í athugasemd sem nefndin gerði við skýrslu ríkisins árið 2011 var ríkið hvatt til að standa vörð um mennta- og heilbrigðiskerfið þar sem áhyggjur þeirra beindust að því að niðurskurður v. efnahagsástandsins myndi bitna á börnum og þá sérstaklega þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu. Við upphaf hagræðingartímabils sveitarstjórnar Árborgar nú í ár nefnduð þið að ekki ætti að skerða grunnþjónustu, sérstaklega þar sem börn eru annars vegar. Til allrar hamingju eru öflugir stjórnendur innan fjölskyldusviðs sem reyna eftir fremsta megni að halda rétt á spilunum og sjá til þess að ekki verði vegið hart að skólaþjónustinni. Yfirlýsing ykkar í upphafi fellur nú um sig sjálfa þar sem þið hafið tekið ákvörðun um að ein af sparnaðaraðgerðunum skerði þjónustu við börn á Stokkseyri og Eyrarbakka. Sparnaðaraðgerð sem vegur að heilsu barna sem nú þegar standa höllum fæti þegar kemur að jöfnum réttindum innan sveitarfélagsins. Í því samhengi langar mig að spyrja: kemur til greina að þið endurskoðið ákvörðun ykkar og haldið sundlauginni opinni yfir vetrartímann?

Líkt og fram kemur í svari að ofan styður Bæjarstjórn Árborgar við innleiðingu farsældarlaganna og að haldið sé í grunnþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra í sveitarfélaginu. Því miður hefur þurft í þeim hagræðingaraðgerðum sem búið er að ráðast í að segja upp starfsmönnum eða starfshlutfalli á öllum starfssviðum sveitarfélagsins, minnka opnunartíma, fresta framkvæmdum og lækka annan rekstrarkostnað. Óumflýjanlegt er að slíkar aðgerði komi við stóran hóp íbúa á öllum aldri. Sem betur fer hefur tekist að halda í grunnþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Sveitarfélagið hefur m.a. náð að bjóða öllum börnum í kringum 18 mánaða aldur pláss á leikskóla og er það vel. Velferðaþjónustan hefur náð að halda nær óbreyttri þjónustu og frístundaþjónustan fundið nýjar leiðir með endurskipulagningu. Það er óhjákvæmilegt að í viðlíka aðgerðum og Sveitarfélagið Árborg stendur nú í að það komi við alla íbúa á einhvern hátt og þær aðgerðir, líkt og opnunartíma sundlauga þarf að endurmeta á einhverjum tímapunkti. Þetta atriði ásamt fleirum verður til umræðu í fjárhagsáætlunarvinnu sveitarfélagsins í haust.

Þótt við séum ekki komin í gegnum endurskipulagningu fjárhags sveitarfélagins verður áfram haft að leiðarljósi að halda sem bestri grunnþjónustu fyrir íbúa. Það eru mörg tækifæri til staðar og í einhverjum tilfellum nýjar leiðir sem geta bætt þjónustuna til framtíðar. Það er skiljanlegt að einhverjir séu ekki sáttir við allar þær aðgerðir sem farið hefur verið í eða verður farið í á næstu mánuðum en mikilvægt að hafa í huga að Bæjarstjórn Árborgar verður að  bregðast við stöðunni til að sveitarfélagið geti staðið undir heildarþjónustunni til framtíðar. Við búum í góðu samfélagi þar sem á íslenskum mælikvarða er stutt í mest alla þjónustu. Það vill maður sjá styrkjast enn frekar og hef ég fulla trú á að það takist á næstu árum.

Bragi Bjarnason,
Formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg   

Nýjar fréttir