9.5 C
Selfoss

Kolbrún tekur við nýrri stöðu í þekkingarsetrinu Ölfus Cluster

Vinsælast

Kolbrún Hrafnkelsdóttir hefur verið ráðin til að leiða uppbyggingu græns iðngarðs í Ölfusi. Starfið byggir á samstarfsneti fyrirtækja á svæðinu þar sem skipst er á orku og hráefnum í anda nýsköpunar, loftslagsmála og orkuskipta. Verkefnið er styrkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Elliði Vignisson stjórnarformaður Ölfus Cluster segir að Kolbrún mun gegna lykilhlutverki í að koma á fót þessum iðngörðum ásamt því að vinna með þeim fyrirtækjum sem eru þegar innan sveitafélagsins og starfa með þessi gildi að leiðarljósi. „Mikil atvinnuuppbygging hefur átt sér stað í Ölfusi að undanförnu og fyrirhugaðar eru fjárfestingar fyrir tvö til þrjú hundruð milljarða á næstu 5 til 7 árum á svæðinu. Grænn iðngarður er hugsaður sem hvati til að auðveld fyrirtækjum sem byggja á grænum gildum hringrásarhagkerfis og loftslagasjónarmiða að koma hugmyndum sínum í farveg.“

Kolbrún er reyndur stjórnandi með yfirgripsmikla þekkingu á sviði viðskiptaþróunar, fjármögnunar og reksturs. Hún hefur undanfarin 20 ár unnið á alþjóðlegum vettvangi bæði sem stjórnandi í lyfjaiðnaðinum og sem stofnandi lyfjafyrirtækisins Florealis. „Það er virkilega spennandi tækifæri að fá að koma að þessari uppbyggingu. Sterk sjálfbær atvinnuuppbygging er grunnur áframhaldandi hagsældar og góðs mannlífs svæðisins. Efling hringrásarhagkerfisins til að draga úr sóun og stuðla a verðmætasköpun með skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda er lykilforsenda“ segir Kolbrún

Kolbrún hefur setið í stjórnum fjölda félaga, samtaka og nefnda og tekið virkan þátt í mótun nýsköpunar- og atvinnuumhverfisins á undanförnum árum. „Ölfus byggir á sterkum grunni landbúnaðar og sjávarútvegs, þar hefur átt sér stað öflug atvinnuuppbygging og nýsköpun undanfarin ár. Vaxtarmöguleikar á svæðinu eru miklir, sérstaklega ef litið er til nálægar við stærstu byggðarkjarna landsins, góðs landsvæðis og hagstæðrar legu hafnarinnar. Ég er fædd og uppalin í Ölfusi og finnst mjög spennandi að fá tækifæri til að vinna að frekari framþróun og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.“

Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Ölfus Cluster segir Kolbrúnu vera frumkvöðul með sterka tengingu við samfélagið hér í Ölfusi. Uppruni hennar, menntun og sú reynsla sem hún býr yfir úr viðskiptalífinu bæði hér innanlands og á alþjóða vettvangi mun nýtast vel í þeirri vinnu sem er fram undan.

Nýjar fréttir