12.3 C
Selfoss

Fimmvörðuháls er mögnuð kennslustofa

Vinsælast

Þriðjudaginn 5. september lagði vaskur 24 manna nemendahópur ásamt þremur kennurum af stað með rútu að Skógum undir Eyjafjöllum með það markmið í farteskinu að ganga yfir Fimmvörðuháls. Gangan er verkefni áfangans ÍÞRÓ2JF02 sem kenndur er á hverri önn við FSu. Lagt var af stað frá Skógum, gengið meðfram Skógá og öllum þeim fjölmörgu fossum sem leynast í ánni. Frá brúnni yfir Skógá var komið í Baldvinsskála. Þaðan farið milli jökla yfir hinn eiginlega Fimmvörðuháls sem er í rúmlega 1000 metra hæð. Á þessum kafla sést vel hve jöklarnir hafa hopað og þar sem áður voru snjófannir eru nú komnir djúpir dalir og íshröngl.

Áfram var haldið upp á gíginn Magna sem einnig er í rúmlega 1000m hæð og þaðan fengum við góða sýn yfir hraunbreiðuna og fjöllin í kring. Frá Magna lá leiðin í Bása, niður Bröttufönn, Heljarkamb, Morinsheiði, Kattahryggi og skógivaxna stíga. Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk eins og í sögu, veðrið lék við okkur allan tímann, þrátt fyrir að veðurspáin hefði ekki verið spennandi dagana áður. Hópurinn var einstaklega samstilltur og jákvæður sem breyttist ekkert þó svo að þau væru orðin ansi lúin þegar komið var niður í Bása, enda búin að ganga 25 km. Í Básum kom einn göngufélaginn okkur skemmtilega á óvart og bauð upp á pylsuveislu, áður en haldið var heim.

Þessi ganga heppnaðist einstaklega vel í góðum hópi nemenda og kennara. Að ganga yfir Fimmvörðuháls er mögnuð kennslustofa þar sem mjög fjölbreytt nám fer fram. Þar er náttúran skoðuð og kryfjuð, hvernig skal bera sig að á fjöllum, reynt er á líkamlegt og andlegt þol og svo eflum við okkur saman í hóp. Sá lærdómur sem kannski er þó þýðingarmestur í svona kennslustofu er lærdómurinn um sjálfan sig og að leysa úr aðstæðum sem oft geta verið erfiðar og krefjandi. Myndirnar sýna hópinn í byrjun ferðar við Skógá og síðan á toppi gígsins Magna sem dregur nafn sitt af syni Þórs þrumuguðs sem hann eignaðist með jötunmeynni Járnsöxu.

ábi / jöz

Nýjar fréttir