9.5 C
Selfoss

ML-ingar í fjallgöngu að hausti

Vinsælast

Frá árinu 1970 fóru ML-ingar í fjallgöngu að hausti með kennurum sínum og öðru starfsfólki. Í gegnum árin hefur verið gengið á hin ýmsu fjöll og mætti þar nefna Laugarvatnsfjall, að sjálfsögðu, Bjarnarfell, Þríhyrning, Vörðufell og svo mætti áfram telja.

Nokkur ár eru síðan þessi góða hefð lagðist af enda erfitt að koma því fyrir í skipulagi skólans að fara með allan hópinn í göngu og kaup á rútuferðum ekki eins auðklofið verkefni í fjárhagnum og áður.

Í miðjum Covid-19 faraldrinum upphófst umræða um mikilvægi hefðanna. Ekki endilega í því samhengi að mikilvægt sé að gera hlutina eins, alltaf. Heldur dýrmæti þeirrar sameiginlegu, jákvæðu reynslu sem margar hefðanna í ML skapa fyrir þá nemendur sem hafa stundað nám við skólann í gegnum áratugina. Hefðir sem lifa tengja ML-inga saman, þvert á kynslóðir.

Þar sem ákveðið rof hafði orðið á skólastarfinu í tengslum við faraldurinn var ákveðið að fara í það starf með nemendum að varðveita hefðir og jafnvel endurvekja einhverjar þeirra. Fjallgangan varð þar fyrir valinu.

Farið var af stað í fjallgöngu á ný haustið 2022 og tókst afar vel til. Stefnan hefur verið sett á að fara í fjallgönguna hér í næsta nágrenni og þurfa því ekki að kaupa akstur og þannig einnig að tryggja að allir nemendur skólans upplifi að ganga á þennan næsta nágranna okkar, Laugarvatnsfjallið.

Í fyrra fórum við upp Gjábakkaveg og þaðan upp eftir fjallinu svonefnda skíðalyftuleið en nú í ágúst 2023 lögðum við á sama fjallið upp eftir stikuðum vegi Lionsmanna á Laugarvatni. Leiðin sem farin var þetta árið var töluvert brattari en í fyrra en alveg ljómandi skemmtileg og fljótfarnari.

Útsýnið sem fæst ofan úr fjallshlíðum er ekki keypt í næstu sjoppu og upplifun að fá að horfa yfir sveitirnar í blíðskaparveðri eins og göngudaginn okkar góða og á leiðinni niður gátu þreyttir nemendur gætt sér á bláberjum og hrútaberjum.

Jóna Katrín,
Skólameistari ML

Nýjar fréttir