7.3 C
Selfoss

Fræðsluganga frá Alviðru á Degi íslenskrar náttúru

Vinsælast

Alviðra, náttúruverndar og fræðslusetur Landverndar og Náttúruminjasafn Íslands bjóða til fræðslugöngu í tilefni af Degi íslenskrar náttúru laugardaginn 16. september kl. 14:00.

Sogið er vatnsmesta lindá landsins og á uppruna sinn í Þingvallavatni. Sogið er rómað fyrir náttúrufegurð, fugla og fiska. Sogið sameinast Hvítá við Öndverðarnes og myndar þar vatnsmesta fljót landsins, Ölfusá.

Leiðsögumaður um lífríkið í Soginu verður Skúli Skúlason líffræðingur, en Tryggvi Felixson stjórnar göngu.

Gangan hefst við Náttúruverndar- og fræðslusetur Landverndar í gamla bóndabænum að Alviðru kl. 14:00 laugardaginn 16. september. Gengið verður norður með Ingólfsfjalli þar sem gott útsýni er yfir Sogið og farið verður niður að Soginu á móts við Álftavatn. Áætlað er að gangan að Álftavatni og aftur heim í bæ taki 2 til 3 klukkustundir.

Eftir göngu verður boðið upp á kakó og kaffi í bænum og samtal um verndun íslenskrar náttúru. Afmælisbarnið Ómar Ragnarsson hefur hug á að mæta og ræða stöðu náttúruverndar á Íslandi.

Í Alviðru verður einnig kynning á verkefninu Grenndargarðar sem Auður I Ottesen hefur staðið fyrir undanfarin þrjú ár og boðið verður upp á ávexti sumarsins.

Alviðra er undir Ingólfsfjalli við Sogið á móts við Þrastarlund við Grafningsveg, rétt norðan við vegamótin við Biskupstungubraut.

Dagur íslenskrar náttúru var stofnaður þann 16. september árið 2010 af ríkisstjórn Íslands að tillögu Svandísar Svavarsdóttur þáverandi umhverfisráðherra. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar og stofnaður til heiðurs því mikla starfi sem Ómar hefur lagt til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og öllum þeim sem lagt hafa sitt af mörkum til að fræða okkur um íslenska náttúru.

Nýjar fréttir