3.4 C
Selfoss

Forréttindi að geta stundað sportið á Íslandi

Vinsælast

Ítalski Selfyssingurinn Stefán Orlandi landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í síðustu umferð Íslandsmeistaramótsins í kappakstri mótorhjóla síðastliðinn sunnudag, eftir að hafa verið í fyrsta sæti í öllum umferðum mótsins. Stefán lauk keppni með 145 stigum, á eftir honum kom Ingólfur Snorrason með 101 stig og í þriðja sæti var Jóhann Leví Jóhannsson með 92 stig.

Ljósmynd: Aðsend.

Stefán er búsettur á Selfossi ásamt konu sinni, Álfheiði Guðjónsdóttur, og eiga þau saman tvo syni. Hann vinnur sem smiður en hefur frá unga aldri haft mikinn áhuga á kappakstri bíla og mótorhjóla. „Bílar voru samt alltaf meira í huga mér til að byrja með en þegar ég var rúmlega tvítugur fór ég að hafa meiri áhuga á mótorhjólakappakstri. Áhuginn var mikill og um leið og ég fékk mótorhjólaprófið, um 2008, var ég fljótur að komast í kynni við hóp sem stundaði hringakstur á Rallykrossbrautinni í Hafnarfirði. Það er frekar hæg og lítil braut en maður lærði rosalega mikið á því tæknilega hvernig á að beita sér á hjólinu og þess háttar.“

Ört stækkandi grein

„Götuhjólakappakstur er frekar nýtt sport á Íslandi. Fyrsta kappaksturskeppnin sem ég tók þátt í var á hringakstursbraut Kvartmíluklúbbsins í Hafnarfirði árið 2018 en árið þar á undan kepptum við einungis í tímatöku. Hringakstursbrautin er frábær búbót fyrir götukappakstur á Íslandi almennt, hvort sem er fyrir mótorhjól, bíla eða önnur farartæki. Brautin hefur stækkað með árunum og telur nú tæpa 2,5 km. Að sama skapi fer greinin bara stækkandi, reglulega bætast við nýir iðkendur og hefur yngri kynslóðin komið sterk inn síðustu ár sem sést á því að við erum með iðkendur niður í 15 ára aldur.“

Samkeppnin nauðsynleg

„Ég var mjög ánægður að ná að landa mínum fyrsta titli því ég hef þurft að sætta mig við annað og þriðja sætið alltof mörgum sinnum,“ segir Stefán og hlær. „Sigurinn er fyrst og fremst viðurkenning fyrir iðkun og áhuga á sportinu. Ég hef stundað þetta af mikilli ástríðu og alltaf pælt í því hvernig ég geti bætt mig í íþróttinni og það mun ég halda áfram að gera. Svo er samkeppnin alltaf af hinu góða og algjörlega nauðsynleg ef maður vill bæta sig.“

Ljósmynd: Aðsend.

„Að vinna er bara bónus“

Það sem fór í gegnum hugann var fyrst og fremst þakklæti. Þakklæti fyrir að geta stundað þetta sport, sem maður hefur svo mikla ástríðu fyrir, á Íslandi í frábærum hópi vina, að vinna er bara bónus,“ segir Stefán, aðspurður um hvað hafi farið í gegnum hugann þegar titillinn var í höfn.

Mikið líkamlegt átak að keppa á mótorhjóli

Stefán segir undirbúning fyrir keppni ekki flókinn. „Maður þarf að sjá til þess að hjólið sé klárt í keppni og vera vel hvíldur. Líkamlegt form er mjög mikilvægt en besta þjálfunin er að mæta á æfingar og hjóla. Að keppa á mótorhjóli á fullum afköstum er mikið líkamlegt átak sem fáar æfingar í ræktinni geta undirbúið mann fyrir. Að sjálfsögðu er hægt að bæta þol og styrk að vissu marki, en að hjóla á hjólinu er allt önnur áreynsla.“

Hann keppir á Honda CBR 600RR 2008. „Með nokkrum vel völdum breytingum til brautaraksturs. Dekkin sem við notum eru sérstök brautardekk sem þurfa mikinn hita til að virka sem skildi. Til þess notum við dekkjahitara sem hita dekkin uppí 90-110 gráður. Einnig er mikilvægt að vera með keppnisbremsuvökva sem þolir mikinn hita, því þegar maður er að bremsa úr 190 km/h niður í 50 km/h fyrir næstu beygju, á nánast einungis framdekkinu hring eftir hring, hitna bremsurnar gríðarlega,“ segir Stefán.

Aðspurður hvað sé framundan segir Stefán að stefnan sé tekin á sömu braut. „Halda áfram að æfa, keppa og hafa gaman. Efla mótorhjólakappaksturs-senuna á Íslandi og halda þessari uppsveiflu í sportinu gangandi.“

Nýjar fréttir