6.1 C
Selfoss

Tveir Árnesingar opna sýningar í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Tvær nýjar sýningar opna í Listasafni Árnesinga laugardaginn 2. september kl. 15:00. Að þessu sinni eru það sýningar tveggja Árnesinga, þeirra Ragnheiðar Jónsdóttur og Jakobs Veigars Sigurðssonar.

Kosmos Kaos – Ragnheiður Jónsdóttir

Ragnheiður er einn virtasti listamaður þjóðarinnar og hlaut hún í ár heiðursviðurkenningu frá Myndlistarráði fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar.

Ragnheiður hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur frá þeim tíma unnið óslitið að myndlist til dagsins í dag. Þráðurinn í verkum Ragnheiðar er sjálfblekkingin – blindnin – græðgin – einsemdin – andvaraleysið – umhverfið – heimurinn okkar. Ragnheiður segir að myndlist sé í hennar huga samtal listamannsins og áhorfandans. Að tilganginum sé náð þegar að henni tekst að rumska við áhorfandanum.

Ragnheiður Jónsdóttir er Árnesingur í báðar ættir. Móðir hennar Sigurbjörg var dóttir Ingvars Hannessonar bónda að Skipum Stokkseyrarhreppi og fyrri eiginkonu hans Vilborgar Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ingvar bóndi á Skipum og Ásgrímur Jónsson listmálari voru systrasynir. Mæður þeirra voru systurnar Sigurbjörg og Guðlaug frá Vantsholti í Flóa. Faðir Ragnheiðar var Benedikt sonur Guðjóns Jónssonar bónda frá Seli og eiginkonu hans Kristjönu Jónsdóttur frá Grímsfjósum Stokkseyri. Þau bjuggu að Leiðólfsstöðum Stokkseyrarhreppi

Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.

Megi hönd þín vera heil – Jakob Veigar Sigurðsson

Jakob Veigar (1975) starfar og býr í Vínarborg en er uppalinn í Hveragerði. Hann fetaði fremur seint inn á veg myndlistarinnar eftir að hafa snúið baki við byggingariðnaðinum og snúið sér að Myndlist. Jakob útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016 og sem „Herr Magister“ í myndlist frá Akademie der bildenden Künste í Vínarborg 2019.

Málverkið er hans aðal miðill og er innblásið af persónulegri reynslu, alkóhólískum huga sem reynir að skilja samfélagið sem hann dvelur í á hverjum tíma ásamt djúpri tengingu hans við náttúruna.

Á opnuninni verður boðið upp á Tónlistargjörning frá Íran, þar sem listamennirnir saLeh roZati og Pourea Alimirzae koma fram.

Nýjar fréttir