4.3 C
Selfoss

Midgard hlýtur Samfélagsviðurkenningu Rangárþings eystra

Vinsælast

Midgard á Hvolsvelli hlaut Samfélagsviðurkenningu frá Rangárþingi eystra á Kjötsúpuhátíð um helgina. Var þetta í fyrsta sinn sem sveitarfélagið veitti slíka viðurkenningu.

Leitast var eftir tilnefningum frá íbúum, en viðurkenningin er veitt þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofun eða félagasamtökum í sveitarfélaginu sem þykir standa sig afburða vel í að efla samfélagið og hafa, með gjörðum sínum og framgöngu, látið gott af sér leiða og verið öðrum góð fyrirmynd.

„Eigendur og starfsfólk hjá Midgard hafa allt frá stofnun fyrirtækisins verið áberandi í samfélaginu okkar. Þau hafa unnið ötullega að því að koma sveitarfélaginu okkar á kortið sem ákjósanlegur ferðamannastaður, bjóða upp á fjölbreyttar ferðir, frábæra gistiaðstöðu og skemmtilega stemningu fyrir sína gesti. Þau einblína á að efla sjálfbærni, vinna að umhverfisvernd og eru frábær fyrirmynd fyrir ferðaþjónustuaðila,“ segir í tilkynningu frá Rangárþingi Eystra.

„En það sem þau hjá Midgard hafa ekki síður unnið ötullega að er að bæta samfélagið okkar á hvern veg sem þau geta. Midgard er einn af vinsælustu tónleikastöðum landsbyggðarinnar og hafa flestir af þekktustu og vinsælustu tónlistarmönnum landsins verið með tónleika á Midgard. Midgard teymið er ekki síður duglegt að efla tónlistarlífið í heimabyggð, bjóða upp á tónleika eð aðra viðburði þar sem íbúar sveitarfélagsins koma fram. Þegar leitast er eftir þátttöku fyrirtækja í viðburðum sem haldnir eru í sveitarfélaginu þá svarar Midgard nær undantekningarlaust kallinu. Hvort sem það er að bjóða upp á samstarf í formi aðstöðunnar sem þau hafa byggt upp á Dufþaksbraut, má nefna frábært Silent Disco sem haldið var sl. fimmtudag eða leggja til sína sérfræðiþekkingu t.d. þegar lagður var hjólastígur í Tunguskógi,“ segir enfremur í tilkynningunni.

Nýjar fréttir