1.7 C
Selfoss

Hjálmar Ólafsson er Sveitarlistamaður Rangárþings eystra

Hjálmar Ólafsson var valinn Sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2023. Christiane L. Bahner, formaður Markaðs- og menningarnefndar, afhenti Hjálmari verðlaunin á Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli um helgina og var þetta í níunda sinn sem viðurkenningin er veitt. Bæði einstaklingar og hópar hafa fengið þessa viðurkenningu síðustu ár.

Hjálmar hefur kennt smíði og útskurð hjá eldri borgurum sem njóta þekkingar hans og handleiðslu og það má sjá á sýningum á handverki eldri borgara að Hjálmar hefur leiðbeint vel. Hann hefur einnig kennt í Hvolsskóla.

Í tilkynningu frá Rangárþingi eystra segir að Hjálmar sé einstakur rólyndismaður sem komi sér líklega vel í hans listsköpun. Hjálmar vann ásamt fleirum að uppbyggingu á Gamla bænum í Múlakoti og þar hafa hæfileikar hans og nákvæmni notið sín vel. Hann hefur skapað hina fegurstu listmuni, miðlað þekkingu sinni til ungra og aldinna og hefur unnið að uppbyggingu og viðhaldi á gamalli byggingararfleið.

Þá segir einnig að Hjálmar sé mikill hagleiksmaður og einstaklega listrænn þegar kemur að því að meðhöndla og skera út í tré. Hann hefur sl. ár búið til ýmsa fallega gripi, jólaskraut, bakka og fleira í þeim dúr en einnig skorið út íslensku húsdýrin sem glatt hafa börn enda ákaflega vel gerð.

Fleiri myndbönd