Hamingjan við hafið var haldin með pompi og prakt í Þorlákshöfn dagana 8.-12. ágúst. Dagskráin var fjölbreytt og fyrir allan aldur og hófst hún á sýningu Leikhópsins Lottu, Gilitrutt í Skrúðgarðinum. Fyrri hluta vikunnar léku bæjarbúar sér í alls kyns leikjum og samveru og má þar nefna Boltaþrautir hverfanna, lautarferð og gömlu góðu leikina í Skrúðgarðinum. Heljarinnar sundlaugardiskó var haldið fyrir börn og unglinga þar sem Diskótekið Dísa hélt uppi stuðinu. Á Níunni, lífsgæðasetri aldraðra var slegið upp grill- og harmónikkufestivali og fólk naut samveru, góðs matar og dansiballs. Það er markmið okkar sem að hátíðinni standa að hafa sem flesta viðburði gjaldfrjálsa svo allir eigi þess kost að taka þátt en Sveitarfélagið Ölfus á veg og vanda að fjármögnun hátíðarinnar ásamt fjölmörgum styrktaraðilum. Í ár voru það eftirtaldir sem styrktu hátíðina: GeoSalmo, Fasteignasala Suðurlands, Landeldi, Arnarlax, Smyril Line, Landsbankinn, Ölfusborg, Kvenfélag Þorlákshafnar, Ísfélag, Skálinn og Suðurverk.
Föstudagskvöldið 11. ágúst fóru bæjarbúar og gestir þeirra í litaskrúðgöngu hverfanna með Lúðrasveit Þorlákshafnar í fararbroddi. Gengið var um bæinn og endað í Skrúðgarðinum þar sem búið var að kveikja upp í kolum svo allir gátu grillað sér eitthvað gómsætt ásamt því að matarvagnar voru mættir á svæðið að bjóða upp á góðan götubita. Umhverfisverðlaun Ölfuss voru veitt. Skinney Þinganes fékk viðurkenningu fyrir snyrtilegasta fyrirtækið í þéttbýli og Icelandic Glacial fyrir snyrtilegasta fyrirtæki í dreifbýli. Botnlanginn Hafnarberg 12-30 hlaut svo viðurkenningu fyrir snyrtilegustu götu Þorlákshafnar 2023. Það var Hrönn Guðmundsdóttir sem veitti verðlaunin fyrir hönd skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss.
Síðan hófst kvöldvaka í stóra tjaldinu í garðinum. Þar komu fram hljómsveitin Sunnan 6, Jónas Sig ásamt hljómsveit, Hr. Eydís og Hreimur. Í tjaldinu var mikil stemning og gríðarlega mikið af fólki á svæðinu. Að kvöldvöku lokinni hélt Körfuknattleiksdeild Þórs sitt árlega Körfupartí þar sem DJ Bragi þeytti skífum. Ábúendur á Skálholtsbraut 11 buðu einnig heim í garðpartí þar sem Hreimur og hljómsveit héldu ,,opna hljómsveitaræfingu”.
Laugardagurinn 12. ágúst bar með sér barna- og fjölskylduskemmtun í Skrúðgarðinum og nágrenni þar sem ýmislegt var hægt að gera sér til dundurs. Hoppland setti upp palla á Herjólfsbryggjunni þar sem hægt var að stökkva í sjóinn og vakti það mikla lukku. BMX Brós sýndu listir sínar, Blaðrarinn mætti og framleiddi blöðrudýr í gríð og erg, hægt var að leika sér í vatnaboltum og risastórum hoppuköstulum auk þess að fara nokkra hringi með Veltibílnum. Sylvía Erla og Árni Beinteinn fluttu Bestu lög barnanna, Diskótekið Dísa sá um krakkaball og söngvarakeppni barnanna var haldin þar sem 13 atriði stigu á stokk, hvert öðru skemmtilegra. Þrjú bestu atriðin fengu viðurkenningu frá Hafnarfréttum en það voru þau Finnur og Kolbeinn Flóki, Karen Embla og Helena sem valin voru af dómnefndinni. Slysavarnarfélagið Sigurbjörg hélt utan um markað í Ráðhúsinu og kenndi þar ýmissa grasa.
Um kvöldið var svo komið að stórtónleikum í tjaldinu þar sem Jón Arnór og Baldur, Katrín Myrra, Moskvít, Langi Seli og skuggarnir, Emmsjé Gauti og Júlí Heiðar og Kristmundur Axel trylltu gesti með frábærri dagskrá. Tjaldið var smekkfullt og annað eins af fólki fyrir utan. Að tónleikum loknum var svo komið að flugeldasýningu sem lýsti upp garðinn í góða veðrinu. Kvöldinu lauk svo með Hamingjuballinu í tjaldinu þar sem Jónsi og Stefanía Svavars ásamt hljómsveit héldu fólki á dansgólfinu til klukkan tvö.
Hátíðin fór einstaklega vel fram og heppnaðist afar vel. Veðrið lék við hátíðargesti alla vikuna og mátti sjá bros á allra vörum. Undirrituð vill koma á framfæri þökkum til allra sem lögðu hönd á plóg við að gera hátíðina sem glæsilegasta. Sérstakar þakkir fá strákarnir í Þjónustumiðstöðinni sem voru tilbúnir að hlaupa hvenær sem var og brugðust við öllu sem upp kom. Einnig fær Sigurgeir Skafti og hans fólk í Sub ehf. bestu þakkir fyrir gott samstarf.
Sjáumst í Hamingjunni að ári!
Magnþóra Kristjánsdóttir,
verkefnastjóri Hamingjunnar við hafið 2023