6.7 C
Selfoss

Töðugjöld hefjast á morgun

Vinsælast

Rótgróna fjölskylduhátíðin Töðugjöld fer fram á Hellu dagana 17.-24. ágúst.

Hverfum bæjarins er skipt upp eftir litum; bleikt og fjólublátt, gult, rautt, blátt, grænt og appelsínugult og svart og hvítt, sem er nýjasta viðbótin við litaskiptinguna. Sú hefð hefur skapast að hverfin skiptist á að bjóða fólki heim á föstudagskvöldinu í svokölluðu þorparölti og í ár fellur það hlutverk í skaut bláa hverfisins, sem er fyrir miðjum bænum.

„Það jafnast fátt á við það að geta litið upp úr amstri dagsins og glatt sig og aðra með uppbroti eins og Töðugjöldin eru. Uppskeruhátíðir eru í eðli sínu til þess að fagna því sem gert hefur verið og að njóta uppskeru sinnar. Það gerum við hver á sinn átt en gott er að gleðjast yfir því sem áunnist hefur í lífinu og horfa síðan með bjartsýni til framtíðar,“ segir í pistli frá Jóni G. Valgeirssyni sveitarstjóra.

Dagskrá Töðugjalda er metnaðarfull sem endranær en vegna framkvæmda við Grunnskólann á Hellu verður henni hliðrað til í ár, sem kemur eflaust ekki að sök.

Raddir úr Rangárþingi hefja leika á fimmtudagskvöld, á föstudag er, sem fyrr segir, þorparöltið, þar sem íbúar í bláa hverfinu taka vel á móti gestum og gangandi.

Á laugardag verður boðið upp á morgunsúmba, morgunverð og viðburði í íþróttahúsinu þar sem Harmonikkufélag Suðurlands stígur á stokk, auk leiksýningar, kökuskreytingakeppni HSK og ýmissa annarra skemmtilegra viðburða. Bílasýning verður á árbakkanum og á íþróttavellinum verður lifandi tónlist, fjölbreytt afþreying fyrir unga sem aldna, BMX Brós, Sirkus Íslands, danssýning, ýmsar keppnir og nóg um að vera fyrir alla sem sækja Hellu heim.

Leikhópurinn Lotta kemur svo og skemmtir ungum jafnt sem öldnum á sunnudaginn og slær botninn úr hátíðahöldunum.

Nýjar fréttir