7.8 C
Selfoss

Rúmum milljarði varið í uppbyggingu innviða á Suðurlandi

Vinsælast

Áætlað er að rúmum milljarði króna verði varið í uppbyggingu innan friðlýstra svæða á Suðurlandi á næstu þremur árum. Þetta kemur fram í nýútgefinni verkefnaáætlun Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja. Um 70% framlaga til landshlutans fer í nauðsynlegar umbætur á Gullna hringnum en þar hefur umferð aukist mikið síðustu ár samhliða örum vexti í komu skemmtiferðaskipa til landsins.

Bráðaaðgerðir og viðbragð í forgangi

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminjum er stefnumótandi áætlun til tólf ára. Markmiðið með henni er að samræma uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða vegna aukningar í útivist og ferðamennsku á friðlýstum svæðum. Áætluninni fylgir verkefnaáætlun til þriggja ára í senn þar sem verkefnum er forgangsraðað. Bráðaaðgerðir og viðbragð er í forgangi en fjármagni er einnig varið til fyrirbyggjandi aðgerða og uppbyggingar á minna sóttum svæðum til þess að bæta dreifingu ferðamanna um landið.

Sex stofnanir annast uppbygginguna

Landsáætlun nær til uppbyggingar innan friðlýstra svæða um allt land en þau eru 130 talsins, þar af 26 á Suðurlandi. Sex stofnanir annast þau verkefni sem eru á verkefnaáætlun á Suðurlandi: Minjastofnun Íslands, Skógræktin, Umhverfisstofnun Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og Þjóðminjasafn Íslands. Ásamt mikilvægri uppbyggingu innan þjóðgarðanna tveggja verður fróðlegt að fylgjast með fyrirhugaðri uppbyggingu í Þjórsárdal þar sem Minjastofnun mun auka vernd og fræðslu við Stöng, Umhverfisstofnun bætir aðstöðu með stígagerð og salernum fyrir ferðamenn og Skógræktin mun sinna viðhaldi á stígum í Þjórsárdalsskógi.

Ákalli Gullna hringborðsins svarað

Gullna hringborðið, samráðsvettvangur um þróun ferðaþjónustu sem tengist Gullna hringnum, var stofnaður í nóvember 2022. Gullna hringborðið sendi frá sér ákall til aðgerða vegna hinnar fyrirsjáanlegu fjölgunar ferðamanna á Gullna hringnum. Þar er m.a. kallað eftir bættu vegakerfi og eflingu heilsugæslu og lögregluþjónustu. Þá var áhersla lögð á fljótari verkferlum og ákvarðanatöku enda séu innviðir víða komnir á fremsta hlunn. Þessi mikla fjárveiting til nauðsynlegra umbóta á helstu áfangastöðum Gullna hringsins er því gott skref í rétta átt.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

Á kortasjá Ferðamálastofu má sjá staðsetningu þeirra verkefna sem eru á Landsáætlun. Þar má einnig skoða úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Ólíkt Landsáætlun veitir Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrki til sveitarfélaga og einkaaðila til uppbyggingar á áfangastöðum utan friðlýstra svæða. Styrkjum er úthlutað árlega og er umsóknarfrestur í október ár hvert. Verkefni sem tilgreind eru í Áfangastaðaáætlun viðkomandi landshluta njóta aukinnar stigagjafar fyrir svæðisbundna þróun. Því er mikilvægt að umsækjendur eigi samtal um fyrirhugaða uppbyggingu við sitt sveitarfélag eða Markaðsstofu síns landshluta með góðum fyrirvara áður en sótt er um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Hér má skoða verkefnaáætlun 2023-2025.

Fréttin er fengin af vef Markaðsstofu Suðurlands.

Nýjar fréttir