5.6 C
Selfoss

Hleypur fyrir Krabbameinsfélag Árnessýslu

Vinsælast

Kolbrún Júlía Erlendsdóttir ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, næsta laugardag, til að safna áheitum fyrir Krabbameinsfélag Árnessýslu sem hefur reynst henni ómetanlegt í ferlinu. Í ár eru þau þrjú sem hlaupa fyrir Krabbameinsfélagið en Kolbrún veit ekki til þess að áður hafi verið hlaupið fyrir félagið í Reykjavíkurmaraþoninu.

Til að heita á Kolbrúnu Júlíu er hægt að smella hér og hvetjum við lesendur eindregið til þess að styrkja þessa sterku konu. 

„Ekkert til að hafa áhyggjur af“

Kolbrún greindist með krabbamein árið 2022 og er að stíga upp eftir veikindin en lætur það ekki stoppa sig í að hlaupa 10 kílómetra. Við ræddum við Kolbrúnu um veikindin og allt sem þeim fylgdu. „Ég byrjaði að finna hnút í vinstra brjóstinu í júní árið 2021 og pantaði strax tíma hjá heimilislækni. Vísaði hann mér áfram til Brjóstamiðtöðvarinnar þar sem ég komst að um miðjan ágúst. Við skoðun hjá þeim komust þeir að þeirri niðustöðu að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af en ég ætti að mæta aftur í september í efirfylgni. Í þeirri skoðun komust þeir aftur að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekkert alvarlegt, sjálfsagt bara bólginn mjólkurkirtill. Ég lét vita að hnúturinn hefði stækkað, en það voru engin sýni tekin og ég send heim. Hnúturinn stækkaði næstu vikurnar og þegar ég fékk boðun í reglubundna brjóstaskoðun pantaði ég tíma, en fékk í kjölfarið hringingu frá Brjóstamiðstöðinni og mér tilkynnt að ég ætti ekki rétt á þessum tíma því ég hafði verið í sérskoðun fyrr um sumarið og við það sat.“

Vissi að þetta var eitthvað

„Ég var ekki sátt við þessa niðurstöðu, því ég vissi að þetta var eitthvað og mér leið illa að vita af þessu þarna. Pantaði ég því tíma hjá Klíníkinni og tók Kristján Skúli læknir vel á móti mér, honum leist ekki á þetta og vildi fjarlægja þennan hnút. Var hann fjarlægður og kom í ljós í rannsókn að þetta var hormónatengt, ífarandi mein frá mjólkurgangi, en það er ein algengasta tegund illkynja brjóstakrabbameins.“

Mættu undirbúin fyrir slæmar fréttir

„Kristján Skúli fór yfir aðgerðina með okkur og ég fékk strax á tilfinninguna að þetta væri illkynja, þegar hann hringir síðan og biður okkur hjónin að koma í viðtal til sín var ég orðin alveg viss um það hvernig staðan var. Á leiðinni frá Selfossi til Reykjavíkur fórum við yfir stöðuna og á þessum tímapunkti vildi ég bara losna við bæði brjóstin til að vera laus við mögulega endurkomu á krabbameini. Mættum við því frekar undirbúin í viðtalið hjá Kristjáni Skúla sem staðfesti grun okkar um að þetta hafi verið illkynja krabbamein og fór hann mjög vel yfir hvernig það hegðar sér og hvað væri framhaldið hjá mér eftir þessa greiningu. Með sinni nálgun hjálpaði hann okkur alveg heilmikið strax í byrjun.

Við fórum út frá honum og inn í bíl og keyrðum af stað frá Ármúlanum. Þarna einhvern vegin byrjaði alvaran, við þurftum að láta okkar nánustu vita og varð það okkur um megn akkúrat þarna, við náðum upp í Ártúnsbrekku keyrðum inn á bílastæðin bak við N1 þar sem tilfinningarnar ruddust fram.“ 

Kolbrún ásamt eiginmanni sínum, Þorvaldi Guðmundssyni. Mynd: Aðsend.

Frá Klíníkinni yfir til LSH

Þar sem hnúturinn var illkynja varð Kolbrún að fara í aðra aðgerð og varð sú aðgerð að vera framkvæmd á LSH því aðgerðir fyrir illkynja krabbamein eru ekki niðurgreiddar af ríkinu hjá einkaaðilum. „Þegar ég komst að hjá LSH varð ég fyrir vonbrigðum því þar þurfti ég ítrekað að réttlæta mína ákvörðun um að hafa leitað til einkaaðila. Vegna Covid var fyrstu aðgerðinni á LSH frestað um 3 vikur og viku fyrir aðgerð er aðgerðinni aftur frestað. Ég andmælti þessari breytingu, því á þessum tímapunkti voru liðnir 10 mánuðir frá því að ég fann hnútinn, en engu að siður var mér sagt að þeir sem væru með krabbamein gengju fyrir í aðgerðir hjá LSH. Þessi bið var mjög erfið, en þegar aðgerðinni var lokið komu í ljós 10 meinvörp í skurðinum og 16 eitlar voru fjarlægðir. Eftir fjölda rannsókna varð ég því að fara í þriðju aðgerðina og nú á báðum brjóstum þar sem í ljós kom enn meira af meinum í vinstra brjósti og forstigsbreytingar í því hægra. Endaði þessi litli hnútur sem fékk að grassera í allan þennan tíma á því að framkvæmt var tvöfalt brjóstnám.“

Leitaði stuðnings þeirra sem höfðu farið í gegnum svipaða lífsreynslu

Aðspurð hverjar helstu áskoranirnar hafi verið í þessu erfiða ferðalagi segir Kolbrún þær hafa aukist í gegnum ferlið. „Fyrst var það fyrst vanlíðan eftir allar þær skurðaðgerðir sem ég fór í, síðan vanlíðan í lyfjagjöfunum og loks þreyta eftir geislana. Ég reyndi að hreyfa mig og halda rútínu í mínu lífi. En það sem hjálpaði mér mest var það að ég leitaði mér upplýsinga hjá þeim í kringum mig sem höfðu farið í gegnum þetta áður, þannig að ég var eins viðbúin og hægt var því sem tók við, hvað af öðru. 

Þétt stuðningsnet

„Ég er svo heppin að eiga frábæran eiginmann og fjölskyldu, vini og ættingja sem hafa stutt vel við mig í þessu öllu. Það að ég hafi getað leitað til annarra sem búa yfir svona reynslu er ómetanlegt og þakka ég þeim kærlega fyrir. Einnig var gott að geta leitað til Krabbameinsfélags Árnessýslu, Krabbameinsfélags Íslands og Ljóssins, þessi félög búa yfir reynslumiklu fólki sem er tilbúið að aðstoða með hvað eina sem kemur upp hjá fólki í ferlinu,“ segir Kolbrún, aðspurð um hvað kom henni í gegnum ferlið. 

„Ég og bara ég veit hvernig mér líður“

Það sem Kolbrúnu þótti erfiðast við að fara í gegnum þessa lífsreynslu var baráttan við heilbrigðiskerfið í upphafi greiningar og allar skurðaðgerðirnar. „En þessi reynsla hefur kennt mér að ég og bara ég veit hvernig mér líður og ég mun héðan í frá aldrei láta segja mér að mér líði einhvern vegin öðruvísi en það sem ég finn. Ég hef alla mína ævi verið heilsuhraust, æft íþróttir og hreyft mig mikið. Í dag er ég að berjast við að geta hjólað án verkja, labba upp stiga fara í fjallgöngur og hlaupa vegna verkja í hnjám og öðrum liðum. Einnig er þrek og þol til að klára daginn oft af skornum skammti, en ég er að vinna í þessu öllu saman.“ 

Krabbameinið er ekki ég

Aðspurð hvernig henni hafi gengið að finna stundir fyrir jákvæðni og gleði í ferlinu segist Kolbrún alltaf hafa litið jákvæðum augum á lífið og sig sjálfa. „Þó ég hafi fengið krabbamein þá er krabbameinið ekki ég. Það er búið að fjarlægja það mein sem var og ég vonandi slepp við að fá það aftur. Þó ég sé enn að finna fyrir því sem á undan hefur gengið, þá ætla ég að vinna mig út úr því og eitt af því er að kaupa mér loksins aftur kort í World Class í september og byrja mína reglubundnu innanhúss vetrar hreyfingu, en hreyfingin er það sem heldur mér í góðu jafnvægi.“ 

„Þetta ert ekki bara þú“

Skilaboðin sem Kolbrún vill koma á framfæri til þeirra sem eru að ganga í gegnum svipaða lífsreynslu eru að leita aðstoðar hjá þeim fagaðilum sem þau telja að henti þeim best. „Það sem reyndist mér best er að vera opinská um mín veikindi og vanlíðan. Fáðu upplýsingar um þín veikindi. Það er svo magnað að þegar þú ferð að tala um vanlíðan við aðra í sömu stöðu þá sérðu að þetta ert ekki bara þú, þetta er líðan sem aðrir í sömu stöðu eru mögulega einnig að ganga í gegnum.“

„Ég hélt að það væru bara hinir sem fengju krabbamein, þetta myndi ekki henda mig. Ég hélt að ég myndi aldrei þurfa að leita aðstoðar hjá Krabbameinsfélaginu, en hér er ég, búin að þiggja fullt af aðstoð frá þeim. Er það mín ósk að sem flestir sjái sér fært að heita á mig í Reykjavíkurmaraþoninu og styði þar með Krabbameinsfélag Árnessýslu,“ segir Kolbrún að lokum.

HGL

Nýjar fréttir