0 C
Selfoss

Rúmlega 100 keppendur frá HSK á Unglingalandsmóti

Vinsælast

110 keppendur af sambandssvæði HSK mættu til leiks á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

Allir keppendur HSK fengu að gjöf HSK treyju merkta sambandinu og Arionbanka, en bankinn hefur um árabil styrkt HSK um kaup á treyjum. Á keppendatjaldsvæðinu tjölduðu HSK keppendur og fjölskyldur þeirra saman á svæði merktu sambandinu og þar var sett upp samkomutjald HSK, þar sem boðið var upp á kakó og kex á kvöldin. Það var Unglingalandsmótsnefnd HSK sem sá um undirbúning og framkvæmdina vegna þessa. Í nefndinni voru Helga Kolbeinsdóttir, formaður, Heiða Pálrún Leifsdóttir, Anný Ingimarsdóttir og Marínó Fannar Garðarsson.

Keppendur HSK stóðu sig vel á mótinu og unnu til verðlauna í fjölda greina og hér verður greint frá þeim sem unnu Unglingalandsmótsmeistaratitla.

Unglingalandsmótsmeistarar einstakra greina:

Biathlon
Marteinn Maríus Marínósson varð Unglingalandsmótsmeistari í biathlon í flokki 15-16 ára drengja.

Frisbígolf
Keppendur HSK unnu þrjá flokka af fjórum í frisbígolfi. Anna Metta Óskarsdóttir vann í flokki 11-14 ára, Aron Leó Guðmundsson vann í flokki drengja 11-14 ára og Vésteinn Loftsson vann drengjaflokk 15-18 ára.

Frjálsar
Keppendur HSK unnu samtals 26 unglingalandsmótsmeistaratitla í frjálsíþróttum.

12 ára
Ásta Kristín Ólafsdóttir vann spjótkastið í 12 ára flokki.

13 ára
Anna Metta Óskarsdóttir tryggði sér titilinn í hástökki og Adda Sóley Sæland vann kringlukast og spjótkast.

14 ára
Bryndís Embla Einarsdóttir varð unglingalandsmótsmeistari í spjótkasti, kastaði 45,36 metra og bætti eigið HSK met um 18 sentimetra. Bryndís vann einnig 80 m grindahlaup og kúluvarp.

Helga Fjóla Erlendsdóttir sigraði í hástökki og langstökki.

15 ára
Vésteinn Loftsson vann langstökk, kringlukast og var í sigursveitinni í 4×100 m boðhlaupi.

Ívar Ylur Birkisson varð Unglingalandsmótsmeistari í 100 m hlaupi, 100 m grindahlaupi, 4×100 m boðhlaupi, hástökki, kúluvarpi og spjótkasti.

Helgi Reynisson var í sigursveitinni í 4×100 m boðhlaupi.

Hugrún Birna Hjaltadóttir kom fyrst í mark í 800 m hlaupi og vann einnig langstökk.

Arna Hrönn Grétarsdóttir   vann hástökk og Sara Mist Sigurðardóttir sigraði í spjótkasti.

16-17 ára
Daníel Breki Elvarsson vann langstökk, hástökk og spjótkast og Ásta Dís Ingimarsdóttir vann 800 m hlaup.

Grasblak
Tveir strákar af sambandssvæðinu, þeir Óðinn Freyr Hallsson og Sölvi Berg Auðunsson, kepptu saman í liði sem þeir nefndu Gosarnir. Þeir unnu grasblakið í 11-12 ára flokki.

Grashandbolti
Gosarnir unnu einnig grashandbolta í flokki 11-12 ára. Í liðinu voru Óðinn Freyr Hallsson, Sölvi Berg Auðunsson, Gabríel Fannar Ólafsson og Þráinn Máni Gunnarsson.

Körfuknattleikur
Andrea Líf Gylfadóttir, Hildur Eva Bragadóttir, Sara Rún Auðunsdóttir og Þórey Mjöll Guðmundsdóttir skipuðu liðið Disney sem vann titilinn í körfu í flokki 11-12 ára.

Kökuskreytingar
Stuðboltastelpur frá Selfossi, þær Bergþóra Hauksdóttir og Stella Natalía Ársælsdóttir, unnu parakeppni 11-12 ára og Andrea Sjöfn Óskarsdóttir sigraði einstaklingskeppnina í 11-12 ára flokki.

Keppendur HSK unnu auk þess til verðlauna í judó, upplestri, skák, stafsetningu og sundi. Þegar þetta er ritað vantar úrslit í nokkrum greinum inn á heimasíðu UMFÍ og því gætu fleiri sigurvegarar bæst við. Ábendingar eru vel þegnar á netfangið hsk@hsk.is.

Mynd: UMFÍ.

Nýjar fréttir