11.7 C
Selfoss

Hvað á að gera um helgina?

Vinsælast

Líkt og alþjóð veit, er verslunarmannahelgin framundan. Verslunarmannahelgin er kennd við frídag verslunarmanna, fyrsta mánudag í ágústmánuði. Sú dagsetning hefur haldist óbreytt frá árinu 1934. Áður höfðu verslunarmenn í Reykjavík átt frídag á ýmsum dögum frá 1894.

Samkvæmt svari Dr. Árna Björnssonar á Vísindavefnum, við spurningunni um hver sagan á bakvið hátíðahöld um verslunarmannahelgina sé, segir að tímasetningin eigi rót að rekja til fyrstu þjóðhátíðarinnar sem haldin var í Reykjavík 2. ágúst 1874. Eftir síðari heimsstyrjöld varð frídagur smám saman almennur frídagur, notaður til ferðalaga og almenns skemmtanahalds.

Eftir styrjöldina fór verslunarmannahelgin smám saman að taka á sig þá mynd sem hún hefur í dag, með skipulögðum útihátíðum og ferðalögum og mánudagurinn varð í reynd almennur frídagur. Ferðafélög og skrifstofur byrjuðu að gangast fyrir löngum helgarferðum, til dæmis í Þórsmörk, Húsafell og Vaglaskóg. Ungt fólk fór snemma að nýta sér hina löngu helgi til útilegu í nánd við dansleiki. Þegar árið 1952 er kvartað yfir „Óheyrilegri ölvun og skrílmennsku“ um verslunarmannahelgina, einkum við Hreðavatnsskála, þar sem „ölmóður óspektarlýður framdi mikil spell“.

Við hjá Dagskránni bindum miklar vonir við að engin spell verði unnin af ölmóðum óspektarlýð um helgina en við höfðum samband við nokkra af forsvarsmönnum tjaldsvæða á Suðurlandi sem flestir báru það sem af er sumri góða söguna.

Þau hjá Tjaldsvæðinu í Hveragerði segja sumarið hafa verið frábært og búast þau við því að allt verði fullt hjá þeim um helgina.

Hjördís á Tjaldsvæðinu á Stokkseyri segir sumarið hafa verið rólegra en síðasta sumar en að þó hafi nokkuð verið um að vera, aðallega túristar, enda var sumarið ansi lengi að byrja. Hún segist ekki gera sér grein fyrir því hverju megi búast við um helgina, en miðað við fallega veðurspá gæti orðið eitthvað af fólki „En tjaldsvæðið okkar er mjög stórt og tekur við ansi mikið af fólki,“ segir Hjördís.

Sumarið hefur verið annasamt á Tjaldsvæðinu í Þorlákshöfn, nóg að gera, sérstaklega um helgar og ekki hefur vantað túristana „sem koma yfirleitt um kvöldmatarleytið og eru farnir við sólarupprás.“ Þau gera ráð fyrir því að þangað komi nóg af gestum um helgina, enda veðurspáin góð.

Ásta Halla Á Tjaldsvæðinu á Hvolsvelli segir sumarið hafa verið geysilega gott og reikna þau með því að gríðarlegur fjöldi sæki þau heim um helgina, þar sem þau hafa nýverið stækkað svæðið.

Í Þakgili hefur sumarið verið frábært það sem af er og reikna þau með töluvert af fólki sem vill njóta náttúrunnar þar um helgina ef veðurspáin verður góð.

Ægir á Tjaldsvæðinu á Eyrarbakka segir sumarið hafa verið mjög gott og gera þau ráð fyrir svipuðum fjölda og undanfarnar helgar ef veðurspáin verður þeim í hag.

Í Básum í Þórsmörk segir Óðinn að sumarið hafi byrjað illa, með köldum og blautum júní. Júlí hafi aftur á móti verið frábær, hlýtt og þurrt og töluvert af fólki. Hann segir að Verslunarmannahelgin sé róleg hjá þeim, mest af fjölskyldufólki og rólegt andrúmsloft.

Á Hellishólum í Fljótshlíð hefur sumarið farið fram úr öllum vonum, mikið að gera og þakka þau veðrinu fyrir að allt hafi verið fullt hjá þeim frá því í vor. Þau búast við því að allt verði fullt um helgina, eins og undanfarnar helgar, enda bjóði þau upp á flotta fjölskyldudagskrá.

Linda Björk í Skaftafelli segir að sumarið hafi gengið mjög vel og að fjöldi manns, bæði dag- og tjaldgestir hafi lagt leið sína til þeirra. Þau búast við töluverðum fjölda um helgina ef vel viðrar, en segja annars erfitt að spá til um það. Þau bjóða upp á hamfaragöngu, ratleik, brennu og söng, barnastund og daglegar fræðslugöngur með landverði til 15. Ágúst.

Á Laugarvatni segir Baldvin að sumarið hafi verið töluvert betra en þau síðustu og að júlímánuðurinn í ár hafi verið sá besti hingað til, en Fagra Frón ehf. tók við rekstri tjaldsvæðisins árið 2020. Þá segir Baldvin að það megi lýsa því myndrænt í stuttu máli, með því að horfa yfir sviðið, að ferðaþjónustan sé í heild sinni að hefja sig á flug inn í betri tíma okkur öllum til heilla. Þau eigi von á þó nokkru fólki um verslunarmannahelgina en þau bjóði ekki upp á föst stæði yfir sumarið, heldur leggja þau áherslu, þar sem svæðið er stórt, á að fólk geti haft „prívat“ stæði fyrir sig í náttúrunni eins og erlendu ferðamennirnir sem heimsækja þau elska.

Magðalena á Tjaldsvæðinu við Skógafoss segir sumarið hafa verið afar gott, gríðar mikil traffík yfir daginn og margir gistigestir. Hún segir frábært hvað veðrið hefur leikið við þau í sumar. Stærstur hluti tjaldgesta eru erlendir ferðamenn og afskaplega margir eyða tíma hjá þeim sem stefna á göngu yfir Fimmvörðuháls til að skoða sig um á fallega landinu okkar. Hún segir þau á tjaldsvæðinu reikna með því að áfram verði heilmikið að gera fram í september og eiga þau von á góðri verslunarmannahelgi, þó að ekki sé skipulögð dagskrá í nágrenninu.

Nýjar fréttir