2.8 C
Selfoss

Grenndarstöð!  

Vinsælast

Kristjana Hrund Bárðardóttir

Hvað er það fyrir eitthvað?

Grenndarstöð er svæði með gámum þar sem hægt er að skila frá sér sorpi/verðmætum sem falla til af heimilinu, (textílefni, ál og gler).  Samkvæmt íslensku orðabókinni þýðir grennd nágrenni og nágrenni þýðir hér nálægt eða á nálægu svæði. Í Árborg eru fimm grenndarstöðvar. Við íþróttavöllinn á Selfossi, við Sunnulækjarskóla, við áhaldahúsið á Stokkseyri, við Búðarstíg á Eyrarbakka og í Tjarnarbyggð. Ekki eru allir íbúar svo heppnir að búa í þessum nágrennum og þurfa því að gera sér ferð á grenndarstöð í stað þess að geta gengið að einni í sínu nágrenni. ER ÞAÐ SATT sem ég heyri að það sé léleg umgengni við þessar grenndarstöðvar?

Nú til dags er sorp verðmæti og hefur reyndar verið lengi og ef þú vissir það ekki þá fær sveitarfélagið greiðslur úr Úrvinnslusjóði fyrir að skila hreinu, flokkuðu sorpi. Viljum við aðstoða sveitarfélagið okkar við að fá sem mest úr þessum sjóði? Vantar sveitarfélaginu okkar ekki pening? Mér skilst að því betri og hreinni flokkun, því meiri peningur! Af hverju eru þá ekki fleiri grenndarstöðvar í sveitarfélaginu? „Af því að það hefur verið svo léleg umgengni á þeim“ svaraði Ágúst Þór hjá Mannvirkja og Umhverfissviði þegar ég spurði hann. Hann talaði einnig um að sveitarfélagið fengi greitt fyrir það sem við setjum í heimilistunnurnar okkar og það sem við förum með á grenndarstöðvar, en ekki fyrir það sem við förum með á Gámsvæðið. Þar borgum við fyrir að flokka!! Það ætti að vera öfugt.

Grenndarstöð.

Ég er enginn sérfræðingur í bókhaldi né í að lesa úr fjárhagsáætlunum en ég gat hvergi séð tekjur frá Úrvinnslusjóði í ársreikningunum og samkvæmt meðfylgjandi skjáskoti úr fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2023 -2026 virðist bara eiga að nota fjármagn í Gámasvæðið!! (ATH upphæðir eru í þúsundum króna) Samkvæmt því sem Ágúst segir ætti að vera arðbærara að fjölga grenndarstöðvum frekar en að eyða miklu í Gámasvæðið. Gaman væri ef einhverjir sem kunna betur að lesa ársreikninga og fjárhagsáætlanir, eða jafnvel þeir sem gerðu þessa reikninga og áætlanir, upplýstu okkur almennu borgarana hverjar tekjurnar frá Úrvinnslusjóði eru á móti rekstrarkosnaði á sorphirðu.

En tilgangurinn með þessari grein er ekki að skammast út í stjórnendur Sveitarfélagsins Árborgar heldur frekar opna augu okkar allra fyrir því að sorp er verðmæti og því betur sem við flokkum og skilum því arðbærara. Í Draumalandinu þá borgar sveitarfélagið okkur fyrir að flokka og skila, en við búum ekki þar. Það besta sem við getum gert fyrir umhverfið er að kaupa minna af hlutum sem enda í ruslatunnunni. Það er ætlast til að við flokkum sorpið okkar í 7 flokka. Fimm af þeim getum við sett í tunnur við heimilin en þrjá af þeim þurfum við að fara með á grenndarstöðvar, sem eru því miður af skornum skammti í sveitarfélaginu, sem leiðir til þess að þeir enda sem óflokkað sorp frekar en verðmæti sem sveitarfélagið getur nýtt. Það er svo efni í aðra grein hvernig við göngum frá þessum fimm flokkum við heimilið til að búa til verðmæti. Hvernig væri að við tækjum öll höndum saman og stöldruðum aðeins við áður en við kaupum næsta hlut sem gæti endað í sorptunnunni. Hugsaðu: Hvar endar það sem ég er að kaupa? Hver borgar fyrir förgunina? Er það ég eða þú?

Þakkir og bros
Kristjana Hrund Bárðardóttir,
framhaldsskólakennari og sorpflokkari til 25 ára

Nýjar fréttir