4.5 C
Selfoss

Afmælishátíð í endurbættri Skálholtskirkju

Vinsælast

Skálholtshátíð er óvenju vegleg í ár vegna þess að 60 ár eru liðin frá vígslu hennar og kirkjan hefur af því tilefni verið endurnýjuð á allan hátt að utan og innan í tilefni hátíðarinnar sem stendur yfir 20. – 23. júlí. Yfirskriftin er sótt í Jesjabók að hluta: „Grasið visnar sagan vex.“ Það var líka gert við vígslu kirkjunnar 1963. Öll hin ómetanlegu kirkjulistaverk eru nú gljáfægð og skínandi eftir mikla viðgerð. Þar sem hún er kirkja heilags Þorláks og Péturs verður sérstaklega tekið fyrir tímabil Þorláks helga Þórhallssonar, siðbót 12. aldar og kirkjuvaldsstefna sem kom frá Róm í gegnum erkibiskupinn í Niðarósi á tíma Þorláks. Þetta sögumálþing er á föstudeginum og haldið með stuðningi frá Sagnfræðistofnun HÍ og Skálholtsfélaginu hinu nýja en það fer að hluta til fram á ensku.

Í hátíðardagskrá sunnudagsins, sem hefst kl. 16, flytur Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur hátíðarerindi. Pétur H. Ármannsson flytur og erindi um Skálholtsdómkirkju sextuga og endurbætur síðustu ára. Þá eru hátíðartónleikar á laugardeginum og hátíðarmessan byrjar kl. 14 á sunnudag.

Afmæliskaffi er á eftir í boði Skálholtsstaðar. Auk þess er málþing á laugardagsmorgni með fv. erkibiskupi Svíþjóðar, dr. Antje Jakelén, um gervigreind og trú, talandi dæmi um deiglu nútímans og sýn á framtíð okkar. Málþingið með dr. Antje er haldið í samstarfi við Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar og Guðfræðistofnun HÍ og fer fram á ensku.

Að lokum má nefna útgáfumálþing um nýja bók „Turbulent Times“ sem er um Skálholt og tyrkjaránið. Öll dagskráin er á heimasíðu Skálholts. Vígslubiskup, sr. Kristján Björnsson, vonast til góðrar þátttöku og vekur athygli á því að allir liðir Skálholtshátíðar eru án aðgangseyris og að hægt er kaupa sér veitingar á Hvönn í Skálholti og gistingu á Hótel Skálholti.

Nýjar fréttir