1.7 C
Selfoss

Vegabréf Bobby Fischers er fundið og komið á sinn stað

Vinsælast

Við tiltekt í sendiráðinu í Tókýó í vor dúkkaði upp útrunnið og gatað „vegabréf útlendings“ í nafni Roberts nokkurs James Fischer. Þarna var um að ræða vegabréf fyrrum skáksnillingsins Bobby Fischer sem gefið var út í febrúar 2005 til að koma honum til Íslands, þar sem hann fékk síðar íslenskt ríkisfang eins og margir muna. Í þessu vegabréfi var hann skráður „ríkisfangslaus“.

Sendiherra Íslands í Tókýó, Stefáni Hauki Jóhannssyni varð strax hugsað til Fischersetursins á Selfossi en svo vildi til að hann hafði fyrir skemmstu verið að aðstoða Setrið við að komast í samband við ekkju Fischers sem er frá Japan og býr þar.
Leitað var til laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins til að kanna hvort og hvernig hægt væri að láta vegabréf látins einstaklings þriðja aðila (Fischersetrinu) í té og í þeirri málaleitan kom á daginn að annað vegabréf hafði nýverið fundist á prótókollskrifstofu ráðuneytisins, almennt vegabréf fyrir íslenska ríkisborgara útgefið í mars 2005, fyrir þennan sama Robert James Fischer. Í því vegabréfi er hann skráður íslenskur. Þar var þá um að ræða vegabréfið sem hann fékk eftir að hann öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt, um leið og „vegabréf útlendings“ var gatað og ógilt.

Eftir nokkrar vangaveltur var niðurstaðan sú að utanríkisráðuneytið myndi afhenda Fischersetrinu tvö útrunnin vegabréf gefin út í nafni Robert James Fischer, kt. 090343-2039, til ótímabundinnar vörslu og sýningar sem safngrip, með þeim fyrirvara að ráðuneytið gæti kallað það til sín ef þörf krefði.

Svo skemmtilega vildi til að Stefán Haukur Jóhannsson sendiherra var staddur á landinu þegar niðurstaðan lá fyrir. Mælti hann sér mót við Aldísi Sigfúsdóttur í Fischersetrinu og afhenti henni þessi tvö vegabréf fyrrum skákmeistarans Bobby Fischers og gat þannig fylgt sögunni eftir frá upphafi til enda.

Utanríkisráðuneytið

 

Nýjar fréttir