Aðsóknarmet var á fjölskyldu- og tónlistarhátíðina Allt í blóma sem haldin var í Lystigarðinum í Hveragerði þriðja árið í röð um síðustu helgi.
Hátíðin byrjaði á fjölskydutónleikum Bríetar og síðar um kvöldið tóku við stórtónleikar með Stefáni Hilmarssyni, ásamt hljómsveit.
Laugardagurinn einkenndist af þéttri dagskrá og fengu gestir að auki að sjá hin ýmsu veðurafbrigði, þegar barnadagskrá og fjölskyldutóneikar fóru fram. Þar stigu á svið Solla og Halla úr Latabæ, Bmx bros, Sirkus Íslands og Suðurlandsdjazzinn var að sjálfsögðu á sínum stað.
Kvöldtónleikarnir voru einstaklega vel sóttir, þar sem Friðrik Dór, GDRN, Unnur Birna, Gígja Marín og Jónas Sig komu fram, ásamt landsliði hljóðfæraleikara.
Á dansleiknum í Tuborg tjaldinu, sem var troðfullt frá upphafi til enda, sáu Gunni Óla, Stefanía Svavars, Þórir Geir og Blaz Roca um stuðið. Bjartmar sló svo botninn úr helginni á sunnudaginn, á tónleikum fyrir fullum Reykjadalsskála.
Aðstandendur Allt í blóma vilja koma sérstökum þökkum á framfæri til þeirra fjölmörgu styrktaraðila sem lögðu hátíðinni lið, auk allra sem heimsóttu Hveragerði og fylltu af lífi um liðna helgi og kveðjast hlakka til að endurtaka leikinn að ári.