11.7 C
Selfoss

Vel heppnuð hjólahátíð í miðbæ Selfoss

Vinsælast

Um þrjúhundruð og tuttugu þátttakendur skráðu sig til leiks í KIA Gullhringinn sem var ræstur út frá miðbæ Selfoss um helgina.

KIA Gullhringurinn var haldinn í tólfta sinn um helgina en hann er sannarlega eitt stærsta og um leið skemmtilegasta hjólreiðamót landsins, fullyrða skipuleggendur keppninnar. Keppnin var fyrst haldin árið 2012 á Laugarvatni og hefur fyrir löngu skapað sér fastan stað í mótadagatali hjólreiðafólks.

Fyrstu níu árin var Kia Gullhringurinn hjólaður frá Laugarvatni en var fluttur á Selfoss sumarið 2021. Nú er svo komið að á Selfossi er keppnin orðin tveggja daga viðurður, hjólað er um Flóahrepp, í gegnum Stokkseyri og Eyrarbakka og endað í miðbæ Selfoss.

„Við erum hæstánægð, allt gekk vel, einmuna veðurblíða var í Flóanum á laugardag og fram á kvöld, logn og þrátt fyrir að það hafi verið skýjað, rigndi ekkert á þátttakendur í brautinni sem verður að teljast afbrigðilegt veðurfar miðað við sumarið í ár. Við höfum fengið mjög góðar viðtökur og okkur þykir vænt um hvað Selfyssingar og fólk í Flóanum tekur vel í þetta. Svo þykir gamla Selfyssingnum auðvitað gott að vera kominn heim á Selfoss með þessa keppni,“ segir Einar Bárðarson, einn skipuleggenda Kia Gullhringsins í samtali við Dagskrána.

Á laugardag var keppt í tveimur vegalengdum, 59 km og 43 km, en í seinni vegalengdinni er boðið upp á þátttöku með og án tímatöku. Þannig gátu vinahópar, saumaklúbbar og vinnustaðahópar hjólað saman á laugardagskvöldið, 43 km hring sér til skemmtunar, án tímapressu. Rafmagnshjól eru einnig velkomin í þá vegalengd og er hún hugsuð sem sameiginlegt skemmtimót allra sem hafa gaman af hjólreiðum en ekki bara þá sem skara fram úr í sportinu.

Allar vegalengdir mótsins á laugardag voru ræstar á Brúarstræti í Miðbæ Selfoss og komu svo í lokamark fyrir framan Mjólkurbúið og Mathöllina. Strax og þátttakendur komu í mark hófst eftirpartý á Sviðinu, tónleikastaðnum í hjarta Miðbæjarins, þar sem verðlaunaafhendingar fóru fram eftir að allir þátttakendur voru komnir í mark.

Á sunnudag buðu KIA og BYKO upp á fjölskylduhring þar sem hjólað var frá BYKO á Selfossi það sem Sunnlendingar kallar Votmúlahringinn og endað í pulsugrilli við BYKO.  Leiðin er um 12 km en ekki er um keppni að ræða heldur svokallað samhjól þar sem allir aldurs- og getuflokkar hjóla saman sér til skemmtunar.  Öll hjól, þar með talin rafmagnshjól, voru velkomin og fjölskyldur hvattar til að fjölmenna.

Nýjar fréttir