6.1 C
Selfoss

Fyrsta flugið á fimmtudag

Vinsælast

Mega Zipline Iceland er lengsta og hraðasta sviflína á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Línan er staðsett í Kömbunum við Hveragerði og fylgir Svartagljúfri frá efstu beygju í kömbunum alveg niður að kaffihúsinu við upphaf gönguleiðarinnar inn í Reykjadal.

Línurnar eru tvær og liggja samhliða svo tveir geta tekið flugið í einu. Línurnar eru 1 kílómeter að lengd og hallinn er að meðaltali tíu gráður. Boðið er upp á tvennskonar leiðir til að fljúga. Annars vegar Fuglinn, þar sem hægt er að sitja eða liggja á bakinu, frjáls eins og fuglinn og hins vegar Fálkinn eða Superman, þar sem legið er á maganum með höfuðið fram. Geta hröðustu fálkarnir náð allt að 120 km hraða á leiðinni niður.

Klukkan 14 á fimmtudag verður fyrsta Fálkaferðin farin, en þrjár fyrstu ferðirnar eru boðnar upp upp á vefsíðu Mega Zipline og rennur ágóðinn af þeim óskiptur til ME-félagsins á Íslandi en línan opnar fyrir almenning á föstudag kl. 10.

Útkoman betri en vonir stóðu til

„Verkefnið sjálft hefur tekið langan tíma, mun lengri en ég hafði hugsað mér upphaflega, en það eru tvö og hálft ár síðan ég byrjaði að teikna þessa hugmynd upp upphaflega. En það tekur tíma að gera hlutina í fyrsta skipti, það hefur engin svona lína verið sett upp hér á landi. Töluverður munur er á stuttri ziplínu og yfir 1000 metra langri. Hinsvegar er útkoman betri en við þorðum að vona, við vissum að þetta væri fallegt svæði en þetta er náttúrlega bara mögnuð upplifun, hún er sterkari held ég en við gerðum okkur grein fyrir og það kemur virkilega vel fram á myndum og myndefni,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri Mega Zipline í samtali við Dagskrána.

Ein af þremur bestu línum í heiminum

„Kanadíska fyrirtækið sem setti þetta upp er búið að setja upp sviflínur út um allan heim. Þeir fróðu menn sem hjá þeim starfa vilja meina að þessi lína sé með þremur bestu línum í heiminum. Þeir horfa til nokkurra þátta við matið; nálægðar við jörðina, þú finnur meira fyrir hraða þegar þú ert nær jörðu, náttúrunnar umhverfis línuna og hvernig hún spilar inn í upplifunina og hraðann sem þú ferð niður línuna. Allir þessir þættir skora rosalega hátt hjá okkur sem er alveg frábært. Við erum hæstánægð og mjög spennt að opna loksins,“ segir Hallgrímur að lokum.

Nýjar fréttir