10 C
Selfoss

Raunfærnimati beitt í námi fanga

Vinsælast

Kennsla í fangelsunum gengur vel og alltaf mikill áhugi í verklegum greinum. Á Litla-Hrauni hefur verið kennd trésmíði í tvö ár og alltaf fullskipað í greinina. Aðstæður eru prýðilegar þar sem kennslan fer fram á trésmíðaverkstæðinu undir stjórn Jóns Inga Jónssonar verkstjóra. Jón Sigursteinn Gunnarsson trésmíðakennari í FSu kemur einu sinni í viku og kennir nemendum.

Á Litla-Hrauni eru einstaklingar á öllum aldri og jafnvel með margra ára reynslu í starfsgrein en ekki formlega menntun. Undir handleiðslu Klöru Guðbrandsdóttur náms- og starfsráðgjafa FSu í fangelsum geta einstaklingar farið í raunfærnimat uppfylli þeir skilyrði. Með raunfærnimati er metin sú þekking og færni sem einstaklingur hefur öðlast á vinnumarkaði sem mögulega getur stytt nám og verið jákvæð hvatning til að ljúka námi. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru 23 ára aldur og þriggja ára staðfest starfsreynsla í grein. Því getur raunfærnimat verið vænlegur kostur fyrir fanga með starfsreynslu sem langar að ljúka námi.

Klara Guðbrandsdóttir nefnir í þessu sambandi dæmi af nemanda sem hún er afar stolt af og lauk nýlega raunfærnimati í trésmíði hjá Iðunni fræðslusetri. „Við undirbúning fékk nemandinn góða handleiðslu hjá Jóni verkstjóra en mikil og góð samvinna er á milli skólans og starfsfólks fangelsisins. Nemandinn fékk metnar 80 af 124 einingum faggreina húsasmíðinnar og öllum nema tveimur verkþáttum af 90 eininga verknámi. Ekki er hægt að segja annað en að þetta sé afburðarárangur og nú á nemandinn lítið eftir til að geta farið í sveinspróf í húsasmíði og getur vonandi klárað það að mestu hjá okkur í FSu.”

Nýjar fréttir