6.1 C
Selfoss

Fuglaspilið frá Hespuhúsinu

Vinsælast

Í Hespuhúsinu í Árbæjarhverfinu litar Guðrún Bjarnadóttir, náttúrufræðingur, ullarband með jurtum eins og gert hefur verið í margar aldir. Samhliða jurtalituninni hefur Guðrún gefið út ýmis fræðsluspil sem ætluð eru til að vekja áhuga almennings á náttúrunni í kringum okkur, aðallega gróðrinum en Guðrún kenndi í mörg ár grasafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Flóruspilið þar sem spilaður er veiðimaður með íslenskum jurtum hefur verið vinsælt undanfarin ár ásamt Blómaspilinu fyrir byrjendur en það er samstæðuspil, einfaldari útgáfa, þar sem plöntutegundir eru paraðar saman. Í Flóruspilinu fylgir skemmtilegur fróðleikur um grasnytjar og þjóðtrú sem tengist blómunum.

Í ár ákvað Guðrún að breyta til og gefa út spil með íslenskum fuglum, Fuglaspilið.  Spilaður er veiðimaður með fuglategundum og hægt er að lesa sér til fróðleiks um nytjar og þjóðtrú tegundanna. Litla Fuglaspilið er samstæðuspil í ætt við Blómaspilið og eru nöfn tegundanna á hverju spili á Íslensku, ensku, pólsku og latínu. Fuglaspilið er einnig til á ensku.

Ljósmyndirnar af fuglunum eru teknar af Jóhanni Óla Hilmarssyni, fuglaljósmyndara, og fræðilegar upplýsingar um fuglana eru fengnar úr bók Jóhanns, Fuglavísi. Spilin eru fáanleg í verslunum víða um land og á vinnustofunni í Hespuhúsinu þar sem hægt er að kikja í litunarpottana og fræðast um gamla handverkið. Nánar um spilið á www.hespa.is.

Nýjar fréttir