Brautskráning fór fram frá Menntaskólanum að Laugarvatni laugardaginn 27. maí 2023 og voru 45 nemendur útskrifaðir. Af Félags- og hugvísindabraut 23 stúdentar og 22 af Náttúrfræðabraut, útskrift var haldin í Íþróttahúsinu á Laugarvatni.
Dúx nýstúdenta var Skírnir Eiríksson með einkuninna 9,03. Skírnir er frá Gýgjarhólskoti og gaman að segja frá því að öll eldri systkin hans hafa einnig dúxað við útskrift frá ML, þau Ögmundur, Jón Hjalti og Þjóðbjörg. Margt er líkt með skyldum. Skírnir hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir nám sitt við skólann og að auki raunvísindaverðlaun Háskólans í Reykjavík.
Sesselja Helgadóttir frá Selfossi var semi-dux nýstúdenta en hún hlaut meðal annars Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverð störf í félagslífi Menntaskólans. Skírnir var einnig dux scholae en semi-dux scholae var Emma Ýr Friðriksdóttir frá Höfn í Hornafirði, nemandi í fyrsta bekk Náttúruvísindabrautar.
Ár hvert veitir Styrktarsjóður Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur viðurkenningu fyrir góðan árangur á stúdentsprófi í formi fjárstyrks. Þetta árið fengu viðurkenningu þau Skírnir Eiríksson, Sesselja Helgadóttir og Guðmundur Hilmar Hannesson, en Guðmundur er frá Kolbeinsá 1 í Hrútafirði. Er þeim óskað innilega til hamingju með árangurinn.
Rannveig Pálsdóttir, önnur stofnenda styrktarsjóðsins, var viðstödd útskriftina og voru styrkþegar myndaðir með Rannveigu og Jónu Katrínu skólameistara ML.
Fyrir hönd 20 ára júbílanta mælti Eyþór Sigurðsson en fyrir hönd nýstúdenta mælti fyrrum stallari, Óskar Snorri Óskarsson. Báðir ræðumenn vöktu sérstaka athygli fyrir frækilega frammistöðu. Ræða Óskars er birt á heimasíðu Menntaskólans að Laugarvatni en á henni var ansi skemmtilegur menntapólitískur blær og höfðu viðstaddir gaman af. Við lok athafnarinnar var fráfarandi skólameistari, Halldór Páll Halldórsson, kvaddur með gjöf frá skólanum og starfsmannafélagi skólans, STAMEL. Voru honum og færðar hinar bestu þakkir fyrir störf við skólann.
Boðið var til kaffisamsætis í húsakynnum Menntaskólans að athöfn lokinni og voru nýstúdentar, gestir þeirra og júbílantar boðnir velkomnir. Þegar líða tók á daginn hófust endurfundir júbílanta en NEMEL, nemendasamband útskrifaðra nemenda frá Menntaskólanum að Laugarvatni, fær leyfi skólameistara til að hittast að brautskráningu lokinni í húsakynnum skólans. Eru þetta hinir mestu endurfundir og mikil gleði við völd.
Sérstakar þakkir sendir skólinn útskriftarárgöngum sínum fyrir veglegar gjafir sem þeir færðu skólanum sínum sem voru fjárstyrkir til tækjakaupa í nýja verkgreinastofu, gjafir til styrkstarsjóðs Rannveigar og Kristins, áletraður granítbekkur sem staðsettur er við móti sólu undir suðurvegg skólans og svo bekkur til minningar um Guðjón Elísson sem féll frá árið 2021 en bekkjarfélagar hans, útskriftarárgangur 1978 gaf hann til skólans.
Að lokum vill Menntaskólinn að Laugarvatni og allt hans starfsfólk óska nýstúdentum 2023 innilega til hamingju með góðan árangur og velfarnaðar í öllu því sem framundan er.
Menntaskólinn að Laugarvatni