1.7 C
Selfoss

Stórt kjúklingabú og litlir ungar til sýnis á Fjör í Flóa

Hjónin Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson eru kjúklingabændur á á Vatnsenda í Flóahreppi. Þar búa þau ásamt þremur börnum sínum,  fjölda kjúklinga og labrador blendingnum Kubbi. Eydís, viðurkenndur bókari og viðskiptafræðingur og Ingvar, sem er vélsmiður að mennt, tóku við búinu af foreldrum Ingvars, þeim Ingimundi Bergmann Garðarsyni og Þórunni Kristjánsdóttur árið 2015. Ingimundur og Þórunn hófu kjúklingarækt að Vatnsenda árið 1978 svo búið hefur nú verið farsællega starfrækt í 45 ár, af sömu fjölskyldunni, undir nafninu Kjúklingabúið Vor.

Kjúklingabúið Vor. Ljósmynd: Aðsend.

Fyrir 2 árum síðan, í miðjum heimsfaraldri, tóku þau Eydís og Ingvar tvö 900 fm eldishús í notkun og þrefölduðu þar með framleiðslugetu búsins en þar eru allt að 40.000 fuglar í fimm eldishólfum. Þau ætla að opna annað nýja húsið fyrir gestum á milli klukkan 13 og 17 þann 3. júní næstkomandi, þegar menningar- og fjölskylduhátíðin Fjör í Flóa fer fram í Flóahreppi. Blaðamaður Dagskrárinnar kíkti í heimsókn á þetta stórglæsilega kjúklingabú og fékk aðeins að fræðast um starfsemina og hátíðahöldin sem framundan eru.

Í öðru nýja húsinu geta verið allt að 14.000 fuglar í einu. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Engin leynd yfir búskapnum

„Við fengum aldrei tækifæri til þess að vera með opnunarpartý eftir uppbyggingu nýju húsanna svo okkur þykir kjörið að skella þessu öllu saman núna í Fjör í Flóa. Tengja okkar rekstur þannig inn í hreppinn og vekja athygli á okkur og okkar búgrein. Það vill svo vel til að annað húsið verður tómt á þessum degi, og við getum boðið fólki inn í stóra salinn, þá getur það séð, kynnt sér og fræðst um búnaðinn í húsunum og almennt fengið smá innsýn í búskap með kjúklinga. Við höfum verið svolítið í því að fræða og kynna okkar búskap. Það hefur loðað svolítið við kjúklinga- og annan alifuglabúsakap að það sé einhver leynd yfir honum og hvað fari fram í eldishúsum. Það kemur að öllum líkindum til vegna sóttvarna, sem koma í veg fyrir að hægt sé að „valsa“ frjálst um í búi líkt og okkar. Manneskja sem fer inní eldissal þarf að búa sig upp á ákveðin hátt, spes galli, stígvél, hárnet, gríma, handþvottur og sótthreinsun með spritti án undantekninga. Vegna þess að annað húsið verður tómt þá býðst tækifæri til að gefa fólki innsýn í búskapinn okkar. Í hinu húsinu verða fuglar sem verða orðnir dálítið stálpaðir og hægt að kíkja á gluggann í forstofunni  og sjá húsið þegar eldi er í gangi“ segja Eydís og Ingvar í samtali við Dagskrána.

Litlir ungar verða til sýnis í öðru nýja húsinu. Ljósmynd: Aðsend.

Fræðsla og skemmtun í bland

„Við erum búin að fá okkar stærstu samstarfsaðila, sem komu að byggingu húsanna, til að  vera með okkur á opna húsinu. Það eru Reykjagarður Holta, sem kaupir kjöt af okkur, Lífland sem selur okkur fóður og allan búnað í húsin og BM Vallá sem sá um steypu og uppsetningu. Við ætlum að bjóða upp á léttar kjúklingatengdar veitingar, drykki og auðvitað eitthvað fyrir börnin. Við sjáum fyrir okkur að þetta verði í bland fræðsla fyrir fullorðna og skemmtun fyrir börnin, en við verðum með litla unga til sýnis í húsinu,“ bætir Eydís við.

Búin að panta sól og sumar

„Vegna sóttvarna fer ekki hver sem er inn á búin og við vitum að fáfræði býr til fordóma. Við höfum verið ófeimin við að sýna okkar búskap, fólk má koma og það má sjá, án þess að stofna okkar búi í hættu gagnvart sýkingum, og það hefur bara gengið ofsalega vel. Við höfum tvisvar verið með opið hús áður, en í þau skipti var ekki hægt að bjóða inn í eldissalinn, heldur eingöngu að kíkja á glugga í forstofunni. Þetta er eiginlega alveg sérstakt að það hittist þannig á að það sé tómt hús á þessum degi. Framleiðsluáætlunin sem er gerð frekar langt fram í tímann raðast þannig núna að þetta passar akkúrat. Við erum búin að leggja inn pöntun á sól og sumar og ætlum að gera þetta með stæl,“ segir Eydís að lokum.

Fleiri myndbönd