11.7 C
Selfoss

„Þetta hefur bjargað lífi okkar“

Vinsælast

Klúbburinn Strókur á Selfossi mun bjóða upp á glæsilegan basar þann 3. júní næstkomandi, að Skólavöllum 1 á Selfossi, þar sem glæsileg listaverk, fallegt garðskraut, handgerðir skartgripir og ýmislegt fleira verður til sölu. Nokkur mögnuð listaverk sem félagar hafa unnið að munu fara á uppboð, hægt verður að bjóða í þessi verk á heimasíðu Stróks og vilja aðstandendur klúbbsins sérstaklega hvetja fjársterk fyrirtæki til þess að taka þátt og styðja þannig við bakið á Stróki.

Smáatriðin í verkum Gumma eru óviðjafnanleg. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Strókur er virknimiðstöð fyrir fólk með geðraskanir og/eða þau sem búa við félagslega einangrun. Tilgangurinn með virknimiðstöðinni er að auka tengsl fólks og efla einstaklinga til sjálfshjálpar, stuðla að virkni og endurkomu út á vinnumarkað, fyrirbyggja innlagnir og brjóta niður fordóma. Einnig að vera stuðningur við heilbrigðis- og félagskerfið þar sem áhersla er lögð á að fólk í bata sæki þjónustu Stróks. Klúbburinn hefur verið starfræktur frá árinu 2005 og er þjónustusvæðið Árnessýsla, Rangárþing og V- Skaftafellssýsla.Blaðamaður Dagskrárinnar kíkti í heimsókn hjá þessum skemmtilega klúbbi um daginn og ræddi við nokkra af listamönnunum sem hafa þar dægradvöl.

Listamennirnir vinna hörðum höndum að uppsetningu basarsins.Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Vill síður enda eins og Gísli á Uppsölum

Guðmundur Viðar Hallbjörnsson er maðurinn á bakvið mögnuðu listaverkin sem verða á uppboðinu hjá Stróki þann 3. júní nk. Guðmundur, gjarnan kallaður Gummi, vann meira og minna alla sína ævi sem múrari, en eftir að hafa farið illa með skrokkinn við vinnu og slys, endaði hann í starfsendurhæfingu hjá Stróki, þar sem löngu týndi listamaðurinn innra með honum fékk færi á að blómstra aftur. „Ég vil síður enda eins og Gísli á Uppsölum í miðri borg svo ég byrjaði að koma hingað til að fá mér kaffibolla og spjalla við annað fólk, ég á allt of auðvelt með að vera einn, mér finnst ég nefninlega ekkert leiðinlegur,“ segir Gummi og hlær. „Ég var mikið að teikna sem unglingur, svo um árið 1991 tók annað við, meiri vinna og minni tími svo það lognaðist útaf. Þegar ég var búinn að vera að koma hingað í kaffi í um eitt ár, árið 2018, ákvað ég að setjast niður með pensil í hönd og mála eina mynd, en það hafði ég ekki gert áður,“ bætir Gummi við, en eftir fyrstu myndina varð ekki aftur snúið og hefur hann framleitt hvert listaverkið á fætur öðru.

Víkingaverkið sem tók um mánuð í smíðum. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Byrjaður aftur að teikna eftir 32 ára hlé

„Ég byrjaði eiginlega óvart í gær að teikna aftur, í fyrsta sinn síðan árið 1991. Teikninginn blundar miklu meira í mér, ég fann það bara þegar ég byrjaði að rissa upp þessa mynd, sem átti bara að vera skissa að vatnslitamynd sem ég ætlaði að mála, en völdin voru tekin af mér og ég teiknaði einhverja allt aðra útgáfu en fyrirmyndin sagði til um. Ég hef ekki vanið mig á að skissa upp það sem ég ætla að mála, heldur hef ég bara leyft þessu að fljóta áfram með málningunni. Oft er ég með einhverjar hugmyndir í kollinum um hvernig lokaútkoman eigi að vera en yfirleitt tekur flæðið yfir og verkin enda allt öðruvísi en ég ætlaði mér í upphafi,“ segir Gummi.

Sker sig úr fjöldanum

Víkingaverkið. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Gummi segist aldrei hafa verið eins og fjöldinn. „Ég hef alltaf farið mínar eigin leiðir og gert eitthvað öðruvísi en aðrir. Það var verið að vinna með að skreyta blómapotta, ég fann einhverjar spýtur hérna sem ég sagaði í bita og fór að fikta með þetta, var með ákveðnar hugmyndir í upphafi en það var eins og með myndirnar, það tók eitthvað yfir og þetta bara varð til.“ Aðspurður hversu langan tíma svona verk taki segir Gummi að hann hafi ekki hugsað út í það fyrr en fólk fór að spyrja, en tók tímann á víkingaverkinu sem hann eyddi innan við mánuði í að skapa, á opnunartíma klúbbsins, en Gummi ætlar að gefa Stróki verkin sem boðin verða upp.

Hluti af fallegu skrautmununum sem verða til sölu á basarnum á laugardag. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Dagskráin gleður klúbbfélaga

„Það er rosalega mikil gleði í húsi, þetta er samstilltur hópur. Fólk má eiga erfiða daga hérna án þess að það sé dæmt fyrir það. Stundum á fólk erfiða daga og þá á það einmitt að koma hingað. Við höfum gleðistundir oft á ári, förum í að minnsta kosti eina ferð saman, grillum saman nokkrum sinnum yfir sumarið, höfum jóla- og þorramat þar sem öllum félögum er boðið og pálínuboð fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði þar sem allir koma með eitthvað, þetta eru ekki bara listamenn heldur líka listakokkar. Svo verð ég að segja þér frá stórkostlegri hefð sem við höldum fast í, alltaf þegar Dagskráin kemur út, setjumst við saman og ráðum gátu vikunnar og það myndast mikil stemning og gleði yfir því heilabroti,“ segir Fjóla Einarsdóttir, forstöðumaður Stróks.

Vinnustofa Stróks er iðulega þéttsetin og þar er alltaf nóg um að vera. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

„Megum vera óþekk þó við séum komin yfir sextugt“

Blaðamaður átti samtal við nokkra af fjölmörgum félögum klúbbsins sem höfðu ekkert nema gott að segja um starfsemi Stróks:

„Ég bý á Eyrarbakka og maðurinn minn vinnur á Selfossi. Ég veit ekki hvað yrði af mér ef ég hefði ekki Strók, ég væri bara ein allan daginn.“

„Það að koma hingað hjálpar mér að rjúfa félagslega einangrun, þessi félagsskapur hefur hjálpað mér svakalega mikið. Ég bý ein og þetta breytir rosalega miklu fyrir mig. Hérna getum við verið við sjálf.“

„Ég veit ekki hvar við værum ef Strókur væri ekki til, þetta hefur bjargað lífi okkar. Það er líka ótrúlega gaman að geta búið til eitthvað sem maður getur gefið áfram, því maður getur ekki endalaust búið eitthvað til fyrir sig og sína. Það er svo gott að geta verið í virkni á sínum forsendum. Hérna getum við einmitt verið við sjálf, megum vera óþekk þó við séum komin yfir sextugt.“

Þessir fallegu sveppir eru steyptir og skreyttir af félögum í Stróki.

Fjölbreytt starfsemi

Öll starfsemi Stróks miðar að því að styrkja einstaklinga með þrenns konar hætti, það er félagsleg virkni, iðja/starfshæfni og heilsuefling. Ávallt er unnið út frá styrkleikum hvers einstaklings og í öllu starfi klúbbsins er virðing og jákvæðni höfð að leiðarljósi. Dæmi um dagskrárliði sem boðið er upp á er: Hugleiðsla, vatnsleikfimi, göngutúrar, vettvangsferðir, iðja, vinna í tækniveri, akrýlmálun, fluguhnýtingar, fjölbreytt námskeið og fyrirlestrar. Í hádeginu er seldur heimilismatur gegn vægu gjaldi og sjá félagar Stróks um að aðstoða við undirbúning og frágang.

Strókur er opinn mánu- til fimmtudaga frá kl. 8:30 – 15:00. Enginn kostnaður eða kvaðir fylgja því að vera virkur þátttakandi í Strók.

Nýjar fréttir