9.5 C
Selfoss

Verahvergi, ný básaleiga í Hveragerði

Vinsælast

Þann 12. maí sl. opnaði Stella Christensen, hársnyrtir og saumakona, nýja básaleigu að Austurmörk 1 í Hveragerði, þar sem fólki gefst færi á að gefa notuðum fötum og aukahlutum framhaldslíf hjá nýjum eigendum með því að selja hlutina í þar til gerðum básum. Blaðamaður Dagskrárinnar kíkti við í Verahvergi og náði tali af hinni fjörugu Stellu.

Stella kát við afgreiðsluborðið í Verahvergi. Ljósmynd: DFS.is/Helga Guðrún Lárusdóttir

Vildi gera þetta eftir sínu höfði

Hvergerðingar hafa tekið mjög vel í Verahvergi og nú, tveimur vikum eftir opnun, eru næstum allir básarnir nýttir. „Ég hef þurft að hjálpa mörgum að setja upp, verðmerkja, taka myndir og útskýra því fólk hefur ekki verið í básaleigu áður, en mér finnst það bara geggjað. Það tekur auðvitað tíma fyrir fólk að læra inná hvernig þetta gengur fyrir sig. Eldra fólk á oft fulla skápa af fötum sem þau eru hætt að nota og ég get hjálpað þeim, ég vil gera þetta aðgengilegt fyrir alla og ég vil að öllum þyki gott og gaman að geta komið hingað, börnum og fullorðnum. Fólk er búið að eyða fullt af peningum í þessi föt og afhverju ekki að leyfa öðrum að njóta. Margir eiga ekki mikið á milli handanna og þá vil ég að þau geti samt komið inn í búð þar sem er eitthvað líf og gaman að versla, með skemmtilegri tónlist og keypt sér föt á góðu verði,“ segir Stella.

Allt endurnýtt

Mátunarklefinn er veggfóðraður í hólf og gólf með gömlum Andrésblöðum úr Góða hirðinum

Stella segist hafa verið með hugmyndina um Verahvergi í kollinum í mörg ár, en loksins er hún orðin að veruleika og það er skemmst frá því að segja að útkoman sé stórkostleg. „Við maðurinn minn, Janus Bjarnason, settum þetta upp saman. Við eigum húsnæðið svo það var engin pressa á okkur, en Janus er með verkstæði hinumegin í húsinu. Þegar ég sá Krílafló á sölu langaði mig að kaupa hana, en ég fann svo að ég vildi fá að gera þetta allt eftir mínu höfði. Mig langaði að það væri svona röff Kaupmannahafnar-fílingur yfir öllu og ég held það hafi tekist ágætlega. Allt hérna inni er endurnýtt, allt dótið í krakkahorninu og meira að segja Andrésblöðin í mátunarklefanum. Ljósin eru frá Rúv, bárujárnið er frá Kotstrandarkirkju, en við áttum megnið af þessu til úti í garði eða á verkstæðinu hjá Janusi. Hillurnar eru til dæmis úr pallinum mínum sem á eftir að klára. Við fengum eitthvað gefins og keyptum annað í Góða hirðinum, ABC á Nýbílavegi og auðvitað í Nytjamarkaðnum á Selfossi, þau þekkja mig með nafni þar,“ segir Stella og hlær.

Örn Tonni Ágústsson Christensen, sonur Stellu og innblástur nafnsins Verahvergi. Ljósmynd: DFS.is/Helga Guðrún Lárusdóttir.

Hlutir sem fá hvergi að vera

Nafnið Verahvergi segir Stella að sé komið frá fimmtán ára syni hennar, Erni Tonna. „Hann býr hjá pabba sínum í Reykjavík en er hjá mér um helgar, hann nennir ekkert alltaf að koma og hefur gjarnan kvartað yfir því að þurfa að fara til Verahvergis og mér fannst það bara tilvalið, fyndið og skemmtilegt nafn. Ég hef hugsað um slagorðið: Verahvergi, átt þú hluti sem fá hvergi að vera? En mér finnst það aðeins of klisjukennt,“ segir Stella og hlær.

Verahvergi er opið alla daga vikunnar, virka daga frá 11-18 og um helgar frá 12-16.

Nýjar fréttir