5.6 C
Selfoss

Virðum veröld – Vöndum valið – Nýtum nærumhverfið

Vinsælast

95. ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna var haldinn að Borg í Grímsnesi 29. apríl. Kvenfélag Grímsneshrepps skapaði afar fallega umgjörð um fundinn og skilaði það sér í ljúfa og góða samveru kvenfélagskvenna.

Yfirskrift fundarins var Virðum veröld – Vöndum valið – Nýtum nærumhverfið en það eru gildisorð sem SSK hefur haft að leiðarljósi á undanförnum árum. 40.- árgangur Ársrits SSK kom út í tengslum við fundinn og í því má lesa það helsta sem gerst hefur í starfi kvenfélaganna og sambandsins á árinu 2022.

Á fundinum tók Sólveig Þórðardóttir Kvf. Villingarholtshrepps við formennsku í sambandinu af Elinborgu Sigurðardóttur Kvf. Biskupstungna sem á að baki níu farsæl ár sem formaður. Henni voru færðar þakkir fyrir sitt góða og óeigingjarna starf. Í haust verða 95 ár síðan kvenfélögin stofnuðu SSK og þá verður þeim tímamótum fagnað. Alls eru 25 kvenfélög í Sambandi sunnlenskra kvenna og í þeim eru 892 félagar sem vinna mikla sjálfboðna vinnu í nafni síns félags.  Starfssvæði SSK er Árnes-og Rangárvallasýsla.

Fram kom í ársskýrslu formanns að í heimsfaraldrinum Covid, hafi kvenfélagskonur tileinkað sér nýjar leiðir að samverustundum og leitað nýrra leiða til þess að afla fjár til góðgerðarmála. Heildarframlög gjafa frá SSK og Kvenfélögunum voru 12.344.069,- á árinu 2022.

Á fundinum voru samþykktar gjafir til HSU að verðmæti um 2 milljónir og eins og fram kom í síðustu Dagskrá, hafa verið útbúin falleg tækifæriskort sem seld eru til ágóða fyrir Sjúkrahússjóð SSK. Þau má nálgast hjá stjórn og kvenfélögunum á svæðinu.

Á fundinum var samþykkt að taka undir eftirfarandi ályktun nýliðins formannaráðsfundar Kvenfélagasambands Íslands um geðheilsu:
Geðheilsa er vaxandi vandamál í þjóðfélaginu. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að gefa þessum málaflokki enn meiri gaum en nú er, hlúa betur að veikum einstaklingum og grípa þá fyrr inn til aðstoðar.
Geðheilsa er jafn mikilvæg og líkamleg heilsa og því má ekki sofna á verðinum þó svo að geðheilsan sé ekki eins sýnileg og líkamlegt sár. Í þjóðfélagsumræðunni heyrast margar alvarlegar sögur um mjög veika einstaklinga sem kerfið nær ekki að grípa. Átröskun, kvíði, sjálfsvíg, kulnun, allt eru þetta alvarlegir sjúkdómar sem einstaklingar bera oft ekki utan á sér og skellur hart á aðstandendum.
Því þarf að gera átak í að grípa einstaklingana fyrr, hlúa að þeim og aðstandendum þeirra sem oftar en ekki þurfa að glíma við áföll í kjölfarið.

Nýjar fréttir