Barnaskólinn á Eyrarbakka endurvekur verkefnið Barnabæ dagana 30. maí – 2. júní. Þessa daga breytist skólinn í Barnabæ, þar sem reknir eru vinnustaðir fyrir nemendur. Þar vinna þau alls kyns störf í þrjá daga og kynna svo og selja afraksturinn síðasta daginn.
Dæmi um vinnustaði sem settir verða upp í ár eru bakarí, steypustöð, blómabúð, bílaþvottastöð, skartgripagerð og fjölmiðill, svo eitthvað sé nefnt. Barnabær er með sinn eigin gjaldmiðil, besóa (skammstöfun skólans er BES) og nemendur vinna sér inn besóa þá daga sem þeir eru í vinnu.
Síðasta daginn er svo uppskeruhátíð þar sem nemendum gefst kostur á að nota launin sín í að kaupa varning af vinnustöðum skólans. Í verkefninu er leitast við að vera í sem mestu samstarfi við nærsamfélagið og fá fyrirtæki og íbúa til að taka þátt.
Uppskeruhátíðin fer fram í skólanum á Stokkseyri föstudaginn 2. júní kl. 9:30-11:30 og er opin öllum. Tilvalið að líta við, gera góð kaup og njóta samveru.