9.5 C
Selfoss

Sveitarfélagið Árborg í 25 ár, í tölum

Vinsælast

Um þessar mundir á Svf. Árborg 25 ára afmæli en Svf. Árborg varð til árið 1998 með sameiningu Selfosskaupstaðar, Eyrarbakkahrepps, Stokkseyrarhrepps og Sandvíkurhrepps. Á slíkum tímamótum er forvitnilegt að skoða hvernig íbúafjöldi og aldurshópaskipting kvarthundrað ára sveitarfélagsins hefur þróast frá stofnun þess.

Mannfjöldaþróun í Svf. Árborg

Íbúafjöldi við stofnun sveitarfélagsins árið 1998 var um 5.500 íbúar. Í dag búa í sveitarfélaginu rétt tæplega 11.400 íbúar skv. nýjustu tölum. Íbúafjöldinn hefur því ríflega tvöfaldast á þessum 25 árum. Á árabilinu 1998 til 2005 var nokkuð stöðug íbúafjölgun á milli ára, um 150-200 íbúar, þegar íbúafjölgunin tók kipp árið 2006 til ársins 2009 en þá bættust við 300-400 íbúar á ári. Íbúafjöldinn í byrjun árs 2009 náði tæplega 8.000 íbúum og þannig hélst íbúafjöldinn allt til ársins 2015 þegar íbúum fór að fjölga á ný. Sérstaða Svf. Árborgar á þessu árabili (2009-2015) var sú að íbúafjöldi stóð nokkurn veginn í stað á meðan í mörgum öðrum sveitarfélögum landsins fækkaði íbúum töluvert. Ekki þarf að rifja upp sérstaklega hvers vegna sú staða sem ríkti á því árabili þ.e. 2009-2015 var uppi í þjóðfélaginu. Frá árinu 2015 til þessa árs hefur svo íbúafjölgunin verið að meðaltali 400 íbúar á ári. Mest fjölgaði íbúum á milli áranna 2019 og 2020 eða um 570 íbúa.

Það er einnig fróðlegt að skoða hvernig íbúafjöldi á hinum mismunandi aldursskeiðum hefur þróast á þessum 25 árum í sveitarfélaginu. Við stofnun sveitarfélagsins árið 1998 var hlutfall yngstu aldurshópana (0-15 ára) 26,4% af heildaríbúafjölda og þeirra elstu 61 árs og eldri 14,8%. Í dag er fyrrnefnda hlutfallið 21,7% og það síðara 20,6%, hlutfallsleg fækkun í yngstu aldurshópunum en fjölgun í þeim eldri.

Frá árinu 1998 hefur börnum á leik- og grunnskólaaldri fjölgað úr 1350 í um 2300 eða 71% sem er ívið minni hlutfallsfjölgun en heildaríbúahlutfallsfjölgunin fram til þessa (2023) sem skýrist m.a. af því að þjóðin er að eldast og því fjölgar hlutfallslega meira í eldri aldurshópum en þeim yngri eins og sjá má að framan.

Mannfjöldaþróun í Svf. Árborg samanborið við landsmeðaltal

Þegar mannfjöldaþróunin í Svf. Árborg til síðustu 25 ára er borin saman við landsmeðaltal kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Fyrir það fyrsta að þá hefur íbúafjölgun í Svf. Árborg að jafnaði verið töluvert yfir landsmeðaltali ef undanskilið er tímabilið 2010-2014.

Einnig má sjá að aldurssamsetning íbúa í Svf. Árborg hefur tekið töluverðum breytingum frá því hvernig samsetningin var árið 1998 í samanburði við landsmeðaltal. Árið 1998 bjuggu í sveitarfélaginu hlutfallslega töluvert fleiri 75 ára og eldri hér en að meðaltali annarsstaðar á landinu, eða um 15% fleiri. Í dag er staðan töluvert önnur. Yngsti aldurshópurinn er nú sá hópur íbúa sem er hlutfallslega töluvert fjölmennari en gerist á landsvísu, eða 12% yfir landsmeðaltali, fór mest í 15% árið 2019.

Ýmislegt má svo lesa og túlka út frá  myndritunum sem sýnd eru hér og unnin er upp úr gögnum frá Hagstofu Íslands. Til dæmis má skoða þessi myndrit í samhengi við rekstur og uppbyggingu innviða sveitarfélagsins sl. 25 ár þó ég láti staðar numið hér…í bili.

Tómas Ellert Tómasson,
byggingarverkfræðingur og fyrrv. bæjarfulltrúi í Svf. Árborg

Nýjar fréttir