5.6 C
Selfoss

„Eitt af fáum alvöru utanvegahlaupum á Íslandi“

Vinsælast

Mýrdalshlaupið var haldið í 10. sinn laugardaginn 13. maí síðastliðinn. Við ræsingu hlaupsins viðraði vel fyrir keppendur og Vík skartaði sínu fegursta. Þegar líða tók á keppnina urðu aðstæður sífellt meira krefjandi vegna suðaustan slagveðurs sem kom inn á landið um hádegi.

Þrátt fyrir þessar aðstæður var árangur keppenda með allra besta móti, og tvö brautarmet voru slegin, í karlaflokk í 21km hlaupinu og í kvennaflokki í 10 km hlaupinu.

Keppnin í kvennaflokki í 21 km hlaupinu var mjög hörð en þær Halldóra Huld Ingvarsdóttir og Íris Anna Skúladóttir komu á sitthvorri sekúndunni í mark í 1. og 2.  sæti, á tímanum 02.01.18 og 19. Í þriðja sæti var Sigþóra Kristjánsdóttir, rúmum 3 mínútum síðar á tímanum 02.04.27.

„Brautin gefur manni engan frið“

Í karlaflokki var það Þorsteinn Roy Jóhannsson sem kom fyrstur, á tímanum 1:41:58, og á eftir honum komu þeir Snorri Björnsson (1.42.54)  og Halldór Hermann Jónsson (1.46.29). Þeir eru allir að æfa hjá Fjallahlaupaþjálfun, með nokkrum af bestu utanvegahlaupurum landsins. Þorsteinn Roy setti nýtt brautarmeti og sagði eftir hlaupið að hlaupið í ár hafi verið einstaklega sterkt, og væri hálfgert íslandsmeistaramót í utanvegahlaupum.

Þorsteinn Roy uppi á Höttu. Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

„Það voru bara svo margir sterkir á startlínunni, það eru bara allir þeir sterkustu mættir“. Spurður út í brautina segir Þorsteinn þetta vera eitt skemmtilegasta niðurhlaup landsins „Þessi braut gefur manni bara engan frið, hún er tæknileg og flókin og skemmtileg“. Snorri og Halldór taka undir orð Þorsteins og segja þetta eitt af fáum alvöru utanvegahlaupum á Íslandi. „Það er alvöru hækkun og svona, 1100 metrar á 21 km, þetta er svona á erlendis skala“.

Í 10 km hlaupinu voru Sölvi Snær Egilsson (0:44:45) og Íris Dóra Snorradóttir (00:53:23) hlutskörpust, en Ingi Páll Snæbjörnsson (0:53:08), Vilhjálmur Atlason (00:54:59), Dalrós Inga Ingadóttir (00:53:30) og Lára Einarsdóttir (0:58.28) röðuðu sér í önnur og þriðju sæti.

Íris Dóra setti brautarmet í 10km hlaupinu, en hún er að koma sterk inn í utanvegahlaupaheiminum um þessar mundir.  „þetta er skemmtileg braut, maður nær að keyra upp hraðann á beina kaflanum, svo komu brekkurnar og maður þurfti bara að tækla það og tækla alls konar. Þetta er mjög falleg leið og skemmtileg, sérstaklega gaman að geta tekið svolítið góðan endasprett á lokametrunum,“ segir Íris Dóra.

Halldóra Huld, Vík og Reynisfjall í baksýn. Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

Meðal keppenda var Sabina Victoria Reinholdsdóttir kennari í Vík, en hún er sú eina sem hefur hlaupið í Mýrdalshlaupinu í öll þau tíu ár sem það hefur verið haldið. Victoria segir það skemmtilegasta við hlaupið sé að þarna hittist fyrir hlauparar á öllum aldri og öllum getustigum og takist á við fjöllin í Mýrdalnum saman. „Þetta er erfitt hlaup, sama hvort þú ert áhugahlaupari eða reynslubolti og það er ákveðið afrek að klára það. Það skapast ákveðin stemning og samhugur í að tækla þetta öll saman“ segir Victoria um Mýrdalshlaupið. Þá var það forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannessson sem veitti fyrstu þremur sætum í hverju hlaupi verðlaun og ávarpaði samkomuna.

Framkvæmd hlaupsins gekk vel og öll umgjörð hlaupsins var til fyrirmyndar. Hlaupið er skipulagt og haldið af sjálfboðaliðum í góðgerðarskyni og eru ýmis félagasamtök sem njóta góðs af framkvæmd hlaupsins, meðal annars Ungmennafélagið Katla, Jaðarsportklúbburinn Víkursport, Björgunarsveitin Víkverji og Kvenfélagið Ljósbrá. Verslunin Sportvörur er helsti samstarfs- og styrktaraðilli Mýrdalshlaupsins.

Guðni Páll einn af skipuleggjendum hlaupsins hleypur á undan gríðarsterkum keppnishópnum í 21 km hlaupinu. Ljósmynd: Páll Jökull Pétursson.

Nýjar fréttir