Fannar Þór Júlíusson og Egill Blöndal voru valdir í landsliðshóp Íslands sem fór til Noregs á Norðurlandamótið í Drammen þann 13.-14. maí. Þetta var fyrsta Norðurlandamót Fannars en hann keppti í U18 og U21 aldursflokki.
Egill Blöndal keppti í -100 kg í seniora flokki og vann sinn riðil með 3 ippon. Í undanúrslitum mætti hann Norðmanninum Bård og vann hann á stigum. Í úrslitum mætti Egill Svíanum Nestor sem var einnig búinn að vinna allar sínar glímur og vann hann eftir kast á seinustu mínútu sem hann hélt út. Var þetta eina gull Íslands á mótinu.
Fannar Þór er á yngsta ári í U18 en lét það ekki stoppa sig og keppti í U21 líka. Fannar tapaði sinni fyrstu glímu á móti Svíanum Zacharias en fékk uppreisn á móti Norðmanninum Liam eftir 8 mínútna glímu á flottu ippon kasti. Fannar endaði í 16. sæti í U18 og meiddist á öxl. Í U21 fékk hann mjög reynda og góða andstæðinga og tapaði báðum glímunum.