14.5 C
Selfoss

Alveg hreint magnaðar viðtökur

Vinsælast

Steely Dan var ein áhrifamesta hljómsveit áttunda áratugarins. Tónlistin var einstök og frumleg blanda af djass- og popptónlist sem heillaði tónlistaráhugamenn og ekki síður tónlistarmenn á öllum aldri og hefur gert æ síðan. Donald Fagen og Walter Becker stofnuðu hljómsveitina í byrjun áttunda áratugarins og sendu frá sér frábærar plötur sem skipa sér margar hverjar á stall með bestu plötum áratugarins.

Donald Fagen gaf svo út hina stórkostlegu sólóplötu The Nightfly árið 1982 sem er því orðin fertug og er án nokkurs vafa með betri plötum níunda áratugarins.

Hópur íslenskra tónlistarmanna, sem kallar sig Reykjavík Tribute Orchestra, tók sig saman og flutti tónlist Steely Dan fyrir troðfullu húsi í Bæjarbíó í september sl. Þau endurtóku leikinn í nóvember og aftur varð uppselt. Hópurinn ákvað því að stíga næsta skref og flytja The Nightfly í heild sinni ásamt bestu lögum Steely Dan á Sviðinu á Selfossi þann 12. maí næstkomandi.

Tónleikagestir mega búast við að heyra lög eins og Do It Again, Reelin´In The Years, Rikki Don´t Lose That Number, Kid Charlemagne, Peg, Josie, Babylon Sisters, Hey Nineteen, auk allra laganna á The Nightfly.

Friðrik Karlsson er einn tónlistarmannanna sem skipa Reykjavík Tribute Orchestra og segir í samtali við DFS.is að vel hafi gengið að æfa fyrir tónleikana. „Þetta er allt saman fagfólk í hópnum þannig að æfingar hafa gengið mjög vel, enda verkefnið sérstaklega skemmtilegt. Innblásturinn að tónleikunum var sameiginlegur áhugi okkar á þessari tónlist en við höfum öll unnið saman í alls konar verkefnum í mörg ár og jafnvel áratugi. Við reynum að halda okkur eins nálægt frumútgáfunum og hægt er, spilum t. d. öll sóló nánast eins og frumútgáfurnar,“ þá segir Friðrik, aðspurður um viðtökurnar á fyrri tónleikum bandsins að þær hafi verið alveg hreint ótrúlega góðar „í raun magnaðar.“

Reykjavík Tribute Orchestra skipa þau Þórir Úlfarsson á hljómborð, Jóhann Hjörleifsson á trommur, Pétur Valgarð Pétursson á gítar, Karl Olgeirsson sem syngur og leikur á hljómborð, Friðrik Karlsson á gítar, Eiður Arnarson á bassa, Iris Lind Verudóttir og Stefanía Svavarsdóttir syngja og sjá um bakraddir, Phil Doyle og Jóel Pálsson spila á saxófón og Ívar Guðmundsson leikur á trompet.

Miðasala á tónleikana fer fram á tix.is en tónleikarnir hefjast kl 21: 00 föstudaginn 12. maí.

Nýjar fréttir