-5 C
Selfoss

Þakklæti og samhugur einkenndi Styrkleikana

Vinsælast

Styrkleikar Krabbameinsfélags Íslands voru haldnir í annað sinn á Íslandi og jafnframt í annað sinn á Selfossi um liðna helgi. Styrkleikarnir standa yfir í sólarhring og eru þannig táknrænir fyrir það að engin hvíld fáist frá krabbameini.

Fjóla bæjarstjóri og Halla, framkvæmdarstjóri Krabbameinsfélags Íslands, settu leikana ásamt Evu Írisi verkefnastjóra og Svanhildi Ólafsdóttur, formanni Krabbameinsfélags Árnessýslu. Allir þátttakendur gengu fyrsta hringinn saman undir lúðrasveitarspili Lúðrasveitar Þorlákshafnar.

„Það voru 500 einstaklingar sem skráðu þátttöku sína á Styrkleikana. Gengnir voru 23.677 hringir (hver hringur 250 metrar). Fjölbreytt skemmtidagskrá yfir daginn með listafólki úr heimabyggð sem gaf vinnu sína, mikill fjöldi sjálfboðaliða sem kom að viðburðinum bæði við undirbúning, á viðburðinum sjálfum og líka í kjölfar hans, t.d við að taka allt niður og ganga frá. Í söfnuninni á safna.krabb.is söfnuðust 2.103.600 kr sem renna til rannsókna á krabbameinum og til þjónustu í þágu krabbameinsgreindra. Krabbameinsfélag Árnessýslu er mjög ánægt með viðburðinn, þátttakan var mjög góð, gleði, þakklæti og samhugur einkenndi þennan sólarhring,“ segir Svanhildur Ólafsdóttir, formaður krabbameinsfélags Árnessýslu.

Fyrirmynd leikanna er Global Relay for life sem er á heimsvísu og Krabbameinsfélag Íslands gerðist aðili að 2022. Markmið viðburðarins er þrennskonar, að fagna lífinu, að minnast og sameinast í sorginni og að berjast saman gegn krabbameini. Þessi markmið fanga upplifun viðburðarins þar sem saman koma fjölskyldur, vinir, einstakingar sem hafa sigrast á krabbameini, einstaklingar sem eru í baráttunni við krabbamein og allir sameinast á kröftugan hátt fyrir málstaðinn.

Dagskráin náði hámarki með ljósastund klukkan 22 á laugardagskvöldið, þar sem kveikt var á kertum í sérútbúnum pokum sem þátttakendur höfðu skreytt og skrifað hugleiðingar eða kveðjur á.  Í kjölfarið voru sagðar sögur frá fólki sem hafði greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra ásamt hugljúfum tónlistaratriðum.

Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður Dagskrárinnar tók meðfylgjandi myndir.

Nýjar fréttir