14.5 C
Selfoss

Sindratorfæran um næstu helgi

Vinsælast

Næstkomandi laugardag fer Sindratorfæran fram á Hellu. Torfæran hefur verið einn stærsti mótorsport viðburður á landinu síðustu ár og hafa 6000 manns lagt leið sína á staðinn og 20 þúsund fylgst með í beinni útsendingu. Að venju eru það Flugbjörgunarsveitin á Hellu og Akstursíþróttanefnd umf. Heklu sem standa að þessu og hafa gert nær óslitið síðan 1975. Þetta er 1. umferð íslandsmótsins og það eru 23 keppendur skráðir til leiks, þar á meðal íslandsmeistarar síðustu ára, nokkrir nýsmíðaðir bílar, auk eldri sem hafa verið betrumbættir í allan vetur.

Ljósmynd: Aðsend.
Aðstæður á Hellu eru með besta móti fyrir torfærukeppni þar sem við fáum allar týpur af þrautum. Byrjum á ökuleikni sem endar í bröttum börðum þar sem útsjónarsemi og stundum klúður ökumanna skilar sér í stökkum, tilþrifum og veltum. Seinni hluti keppninar er svo meiri hraði og aksjón þar sem keppendur reyna fyrir sér í tímabraut, vatnafleytingum og mýrarakstri. Keppendur þurfa að fleyta yfir tæplega 200 metra langa á þar sem hraðinn og hestöflin skipta höfuð máli. Áhorfendum gefst kostur á að skoða bílana, hitta liðin og keppendur fyrir keppni í hádegishléi og eftir keppni þar sem er margt að sjá og forvitnilegt hvernig svona bílar virka.

Allar upplýsingar um keppnina má finna á viðburði keppninar á Facebook. 
Við ætlum svo að hita aðeins upp fyrir keppnina í hádeginu á fimmtudaginn við höfuðstöðvar Sindra í Kópavogi, nánar um það hér.
Torfærunefnd fbsh

Nýjar fréttir