8.9 C
Selfoss

Kalla eftir úrbótum frá ríkisstjórn

Vinsælast

Fundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi haldinn á Selfossi 22. apríl 2023 lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.  Stýrivextir eru háir og hafa hækkað umtalsvert síðustu mánuði og verðbólgan ekki gengið niður líkt og vænst var. Nauðsynjavörur og húsnæðislán hækka og heimilin bera kostnaðinn. Greiðslubyrgði þeirra sem tóku óverðtryggð lán hefur aukist mikið. Fundurinn krefst þess að ríkisstjórnin setji fram mótvægisaðgerðir sem duga þeim heimilum sem í erfiðastri stöðu eru.

Fundurinn lýsir yfir áhyggjum af stöðu heilbrigðismála í Suðurkjördæmi og á landinu öllu. Fundurinn leggur áherslu á að fundin verði raunhæf lausn á mönnunarvanda þeim sem kerfið glímir við. Koma þarf til móts við heilbrigðisstarfsfólk með betri starfsaðstöðu, minna álagi og bættum kjörum í þeim tilgangi að forða því að heilbrigðisstarfsfólk yfirgefi starfsvettvanginn og til að laða þá að sem hafa þegar leitað í önnur störf.

Fundurinn krefst þess að stjórnvöld sjái til þess að heilbrigðisþjónusta sé öllum aðgengileg óháð efnahag. Samningar ríkisins við sérgreinalækna hafa verið lausir í rúm fjögur ár. Veikt fólk greiðir kostnaðinn af samningsleysinu og nú er svo komið að margir hafa ekki efni á að fara til læknis. Kjördæmisráð Suðurkjördæmis hafnar heilbrigðisstefnu sem gerir ráð fyrir háum upphæðum úr vösum sjúklinga.

Fundurinn kallar eftir skýrari áætlunum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Afar brýnt er að grænu umskiptin verði réttlát og leggist ekki þungt á þau efnaminni í samfélaginu. Einnig þarf að gæta jafnræðis á milli landshluta og taka tillit til landfræðilegra áskorana.

Þá leggur fundurinn til að unnin verði auðlindastefna fyrir Ísland með sjálfbærni að leiðarljósi ásamt því að fullt verð fáist fyrir tímabundna nýtingarsamninga. Brýnt er að sanngjarn hluti auðlindarentunnar renni til sveitarfélaga til atvinnuuppbyggingar.

Samfylkingin í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir