3.9 C
Selfoss

Ég og maðurinn minn höfum sérstaklega mikinn áhuga á ljóðum

Vinsælast

a…segir lestrarhesturinn Hekla Þöll Stefánsdóttir

Hekla Þöll Stefánsdóttir er uppalin í Þorlákshöfn en flutti svo á Selfoss þegar hún var 17 ára. Hún býr í dag í Tjarnabyggðinni ásamt manni sínum Sölva Snæ Jökulssyni og þremur sonum. Hún er með BA og MA próf í fornleifafræði og M.Ed próf í kennslufræði og starfar við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hún kennir landafræði og stjörnufræði meðal annars. Hún er þó þessa dagana í fæðingarorlofi.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég er alltaf að lesa að minnsta kosti tvær bækur í einu. Mér finnst gott að vera að lesa eina og hlusta á eina. Ég er að lesa Hvítadauða eftir Ragnar Jónasson og að hlusta á Bréfið eftir Kathyrin Hughes. Ég er ekki alveg viss hvað það er sem stjórnar því hvaða bækur ég vel mér að lesa, stundum mælir einhver annar með bók sem vekur áhuga minn eða ég les umfjöllun bókarinnar og hún kveikir í mér.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég elska bækur sem hafa mjög óvæntan endir, þegar ekkert er eins og maður hélt og maður þarf næstum að lesa bókina aftur til að fá nýja upplifun af henni. Annars er ég lang mest að lesa skáldsögur og hef mjög gaman af bókum með einhverskonar gátu sem þarf að leysa, hvort sem það er morðrannsókn eða einhver dularfullur atburður sem þarf að kanna.

Ertu alinn upp við bóklestur?

Ég hef mjög gaman af barnabókum og mamma las rosalega mikið fyrir okkur systkinin þegar við vorum lítil. Ég held ég hafi alltaf verið með einhverja bók á náttborðinu sem krakki og þá aðallega ævintýrabækur eins og Harry Potter, Hringadróttinssögu og Eragon. Mamma las mikið af Nancy Drew og Astrid Lindgren bókum fyrir okkur sem ég hafði mjög gaman af. Mamma og pabbi hafa alltaf lesið mjög mikið og gera enn sem er rosalega gott fyrir börn að alast upp við. Ég sjálf legg mikla áherslu á að lesa fyrir mín börn. Uppáhalds bókin mín sem krakki var Blómin í Bláfjöllum eftir Jennu Jensdóttur og Hreiðar Stefánsson.

En hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Ég myndi skilgreina mig sem hinn almenna lesara, ég les mikið það sem er í ,,tísku“ eða bækur sem eru vinsælar hverju sinni. Mér finnst mjög gott að hlusta á bækur þegar ég er að gera eitthvað sem mér finnst leiðinlegt eins og að brjóta saman þvott eða keyra og svo finnst mér gott að lesa bók þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin til að róa hugann, sem reyndar virkar ekkert alltaf ef bókin er of spennandi!

Áttu þér uppáhaldshöfund(a) og þá hvers vegna?

Ég vel bækur yfirleitt ekki eftir höfundum en þegar ég lít til baka þá sé ég að ég hef mikið lesið eftir Yrsu Sigurðardóttur eins og sennilega flestir Íslendingar sem lesa og Dan Brown er líka einn sem ég hef lesið mikið eftir. Ég á kannski enn eftir að detta á ,,minn“ höfund.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já svo sannarlega. Ef ég myndi leggja saman allan tímann sem ég hef verið að lesa þegar ég átti að vera sofandi þá myndi það samtals spanna vandræðalega langan tíma! Það er stór hættulegt að eiga svona lestölvu með næturljósi því þá getur maður lesið þó að kallinn sé sofnaður án þess að vekja hann.

En að lokum Hekla, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef lengi verið með nokkrar hugmyndir en aldrei látið verða af því. Mig langaði lengi að skrifa barnabók sem myndi höfða til stráka sem væru að hefja lestur til að efla áhuga þeirra á lestri. Hver veit nema að ég leggi í það einn daginn. Ég og maðurinn minn höfum líka sérstaklega mikinn áhuga á ljóðum og hefur okkur langað að skrifa saman ljóðabók með óhefðbundnu sniði. Hann er algjör ljóðamaður og semur alltaf ljóð á jólapakkana hjá öllum fjölskyldumeðlimum í skopstíl og hefur það smitast yfir á mig. Annars væri líka gaman að hella sér í að skrifa góða fræðibók um stjörnufræði þar sem mér sem kennara þykir vanta betri kennslubók í stjörnufræði á framhaldssólastigi.

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com.

Nýjar fréttir