8.9 C
Selfoss

Afmælishátíð í Vallaskóla

Vinsælast

Föstudaginn 31. mars var haldið upp á 20 ára starfsafmæli Vallaskóla og um leið 90 ára skólasögu á Selfossi. Nemendur og starfsfólk unnu hörðum höndum að skreytingum fyrir afmælishátíðina eins og sjá mátti á glæsilegum afrakstri vítt og breitt um skólann.

Fyrsta skólahúsið á Selfossi var byggt fyrir norðan húsið Stað í Sigtúni á bökkum Ölfusár. Grunnflötur þess var 8,8 m x 5,4 m, alls 47,5 fm fyrir 90 árum síðan. Fyrsta skólaárið var barnaskólinn enn starfandi sem farskóli og kenndi Ásthildur Pálsdóttir þeim 16 nemendum sem þá skólann sóttu. Þennan fyrsta vetur var húsið hitað upp með gömlum kolaofni úr Vesturbúðinni á Eyrarbakka. Ekki var rennandi vatn í húsinu og engin var snyrtingin en útikamar var til staðar norðan við húsið.

„Afmælishátíðin okkar tókst með eindæmum vel! Við fórum í skrúðgöngu um skólann, hlustuðum á afmæliskveðjur, dönsuðum zumba og borðuðum kökur og pizzu, alveg eins og afmæli eiga að vera, líf og fjör og gleði,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

 

(Afmælishátíð)

Gaman er að geta þess að gamlar Dagskrár voru notaðar við gerð fánaprikanna sem börnin skreyttu svo með afmælisfánum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

(Helga í skrúðgöngu)

Helga R. Einarsdóttir, fyrrum starfsmaður skólans til margra ára, lét sig ekki vanta á afmælishátíðina.

(Páll Sveinsson)

Páll Sveinsson, skólastjóri Vallaskóla ávarpar afmælisgesti

(Gústi)

Gústaf Lillendahl tók þátt í skrúðgöngunni ásamt dóttur sinni sem er nemandi við Vallaskóla, en Gústaf var einmitt í fyrsta útskriftarárganginum úr Vallaskóla og sagðist því vera heiðursgestur á hátíðinni.

Nýjar fréttir