-5.9 C
Selfoss

Groovís, byltingarkennd ísbúð

Vinsælast

Groovís er ný ísbúð sem verðandi hjónin, Árni Bergþór Hafdal Bjarnason og Guðný Sif Jóhannsdóttir stefna á að opna fyrir páska í miðbæ Selfoss. Groovís er staðsett í húsinu Ingólfi, sem hýsti áður Bæjarís. Blaðamaður Dagskrárinnar leit við í vikunni þar sem Guðný var á þönum við að mála og undirbúa þessa skemmtilegu ísbúð sem kemur eflaust til með að færa bæjarbúum og gestkomandi ánægjulega tilbreytingu frá hinni hefðbundnu íslensku ísbúð.

Candyfloss og kleinuhringir

„Þetta verður „groovy“ ís, við erum búin að taka Bæjarís og gera hann skemmtilegri. Við munum framleiða litla kleinuhringi hérna í þar til gerðri vél, þar sem við samnýtum „toppings“ -borðið fyrir ísinn og kleinuhringina þannig að maður getur annað hvort búið sér til sinn eigin rétt eða keypt tilbúinn af matseðli. Við verðum líka með candyfloss-vél og ætlum með henni að tryggja viðvarandi hátíðarstemningu í miðbæ Selfoss héðan í frá,“ segir Árni kátur í bragði í samtali við Dagskrána.

Falleg kramarhús

„Við ætlum að bjóða upp á allskonar sambland af þessu þrennu: Ís, kleinuhringjum og candyfloss, sem verður sérstaðan okkar, þar má til dæmis nefna shake og donut, þá ertu með shake glas og setur kleinuhringi yfir rörið. Staðlaða kramarhúsið okkar verður ekki venjulegt kramarhús heldur með „cotton candy tutu“ eða candyflosspilsi, sem er mjög fallegt,“ bætir Árni við.

Einfalt og fljótlegt

Hjá Groovís verður engin eiginleg afgreiðsla. „Það verða tvær tölvur hérna sem vísa inn í salinn, í þeim getur fólk valið hvað það vill, pöntunin kemur svo inn í eldhús til okkar. Í salnum verður skjár þar sem má sjá í hvaða pöntunum er verið að vinna og hverjar eru tilbúnar,“ segir Árni.

Engin röð á Groovís

„Með þessu viljum við reyna að sporna við þessum röðum sem vilja alltaf myndast í ísbúðum. Ef það kemur röð þá er hægt að skanna QR-kóða og klára þetta í gegnum símann og svo er hægt að fá sér sæti úti í sólinni ef svo ber við og fylgjast með í símanum þegar pöntunin er klár. Að auki geta þau sem eru að vinna þá betur einbeitt sér að því að afgreiða ís. Ég held að þetta gæti verið byltingarkennt, þetta er annaðhvort mjög sniðugt eða mjög heimskulegt, það kemur í ljós,“ segir Árni og hlær.

Nýjar fréttir