-2.8 C
Selfoss

Nýr vefur um áhrif mannsins á mófuglastofna opnaður

Vinsælast

Vísindamenn við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og samstarfsfólk hafa opnað nýjan vef þar sem veittar eru upplýsingar um áhrif landnotkunar á mófuglastofna og lagðar til aðgerðir og ábendingar um mófuglavernd sem byggja á vísindalegum grunni. Vefurinn, moi.hi.is, grundvallast m.a. á rannsóknum sem unnar hafa verið við rannsóknasetrið en mógfuglar eru taldir afar heppilegur mælikvarði á líffræðilega fjölbreytni þar sem þeir eru bæði algengir og þurfa fjölbreytt búsvæði auk þess þeir eru næmir fyrir ýmsum umsvifum mannanna. Hér á landi verpir stór hluti heimsstofna af nokkrum tegundum mófugla og Íslendingar hafa með lögum og ýmsum samningum sem snerta líffræðilega fjölbreytni skuldbundið sig til að vernda  slíka fugla.

Mófuglar hafa verið vaktaðir tiltölulega stutt hér á landi, í hálfan annan áratug, og við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi hófst slík vöktun fyrir um áratug. Hún leiðir m.a. í ljós að tveimur tegundum mófugla vegnar mjög vel, skógarþresti og hrossagauk, sem eru tegundir sem sækja í hávaxnari gróður og líður vel í návist mannsins að einhverju leyti, en stóru stofnarnir af algengum mófuglum, heiðlóa, lóuþræll, spói, stelkur og þúfutittlingur, sýna mjög neikvæða tilhneigingu á þessu tímabili. Mjög sterkar vísbendingar eru um að breytingar á þessum stofnum tengist breyttri landnýtingu.

Á vefnum er farið yfir það hvaða þættir landnotkunar hafa áhrif á afkomu mófugla, bæði út frá rannsóknum hérlendis og erlendis. Þar má nefna vegagerð, skógrækt, uppbyggingu sumarhúsa og vindorkuver. Tekið er dæmi af því hvaða áhrif það hefur á mófuglastofna að byggja eitt sumarhús á 12,5 ha svæði í dæmigerðu sumarhúsalandi, en við það tapast t.d. strax um 75% af heiðlóum sem verpa á svæðinu. Þá hafa vísindamenn rannsóknasetursins reiknað það út að ef öll þau 7.000 sumarhús, sem búið er að samþykkja skipulag fyrir á landinu, verða byggð munu tugþúsundir mófugla tapa búsvæðum sínum. Þá hafa rannsóknir sýnt að vegagerð og skógrækt hafa áhrif á búsvæði mófugla töluvert út fyrir það svæði sem fer beint undir slíka landnotkun.

Vindorkuver hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu og áhrif þeirra á mófugla hafa verið rannsökuð talsvert erlendis, m.a. í Skotlandi þar sem finna má sömu tegundir mófugla við hliðstæðar aðstæður og hér. Mest hefur verið rætt um hættuna á því að fuglarnir fljúgi á spaða vindmylla en jafnframt gildir það sama og um vegi og skógrækt, þéttleiki varps minnkar í og við vindorkuver. Af þessum ástæðum telja vísindamennirnir skynsamlegra að jafnaði að staðsetja vindorkuver frekar á ógrónu landi en á grónum heiðum þar sem þéttleiki mófugla er mikill.

Á vefnum eru enn fremur lagðar fram ýmsar tillögur að aðgerðum sem hægt er að ráðast í til að vernda mófuglastofna og stuðla þannig að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Ábendingar um aðgerðir snerta m.a. landbúnað, s.s. ræktun lands og slátt, og betri umhirðu um votlendi.

Nýjar fréttir