8.4 C
Selfoss

Þreytt og í skýjunum eftir alla hjálpina

Fjölskyldan að Kirkjuhvoli á Eyrarbakka er komin heim aftur eftir 10 daga að heiman á meðan heimili þeirra var óíbúðarhæft eftir að hlaupahjól sprakk og varð alelda í þvottahúsi fjölskyldunnar. Vilja þau koma þökkum á framfæri fyrir alla þá hjálp sem þau hafa fengið á þessum erfiða tíma.

„Orð eru fátækleg þegar kemur úr að því að þakka fyrir svona einstakan stuðning og hjálp sem við höfum fengið eftir brunann sem við lentum í 13. mars sl. Tíu dögum eftir brunann erum við fjölskyldan komin aftur heim, þökk sé fjölskyldu, vinum, og ykkur öllum. Þetta var brjálæðisleg vinna og keyrðum við nánast á tómum tanki í restina,“ segja þau Birna, Ívar og synir í samtali við dfs.is.

Ívar og Birna.

„Við erum þreytt og alveg í skýjunum, vinir, fjölskylda og meira að segja bláókunnugt fólk sem kom okkur til hjálpar í þessu áfalli okkar. Svona atburður kennir manni að þó að maður hafi misst hlutina sína svona þá skiptir það ekki öllu. Við erum hér,  við erum heil, erum saman  og á lífi. Það er ekki sjálfgefið og munaði bara ekkert miklu að það hefði ekki orðið raunin. Við viljum hvetja fólk til að athuga hvort reykskynjarar og slökkvitæki séu í lagi,“ bæta hjónin við.

Að lokum sendir fjölskyldan kærleikskveðjur og þakkar fyrir ómetanlega aðstoð undanfarna daga:

„Við getum aldrei fullþakkað ykkur enn reynum okkar besta!

Takk fyrir hjálp við að tæma húsið
Takk fyrir hjálp við að henda ónýta dótinu okkar
Takk fyrir hjálp við að þrífa
Takk fyrir hjálp við að mála
Takk fyrir fatasendingar
Takk fyrir sængur og kodda
Takk fyrir rúmföt
Takk fyrir heimilistæki
Takk fyrir fjárhagsstuðning
Takk fyrir hlý orð
Takk fyrir knúsa og kossa
Takk fyrir að halda utanum okkur
Takk fyrir lánið á húsnæði allan þennan tíma

Takk, takk, takk, takk!“

Fleiri myndbönd