-1.1 C
Selfoss

Titill og HSK met á Bikarkeppni FRÍ

Vinsælast

HSK-Selfoss sendi ungt og efnilegt lið til keppni á bikarkeppni Frjálsíþróttasambandsins sem haldin var í Kaplakrika laugardaginn 18. mars síðastliðinn.

Mótið var allt hið glæsilegasta og skemmtileg nýjung að hafa DJ, sem hélt uppi stuðinu á mótinu. Eins var Albert Þór Magnússon kynnir á mótinu og bryddaði hann uppá allskonar nýjungum, tók viðtöl við sigurvegara strax að loknum greinum og hélt uppi rífandi stemmningu.

Kristinn Þór bikarmeistari

Hlauparinn reynslumikli Kristinn Þór Kristinsson sem mætti á dögunum með stæl aftur á hlaupabrautina kom sá og sigraði í 1500m hlaupi karla á sínum ársbesta tíma 4:00,70sek og bætti hann þar með sitt eigið HSK met í flokki 30-34 ára um tæpar 7 sekúndur.

Hjálmar Vilhelm bætti 30 ára gamalt HSK met föðurbróðurs síns

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson spreytti sig í kúluvarpskeppninni. Hann stóð sig vel og hafnaði í 5. sæti, en Hjálmar sem er einungis 15 ára gamall kastaði kúlunni 10,98m og er það nýtt HSK met í flokki 15 ára pilta með karlakúlunni en hún er 7,26kg. Gamla metið var í eigu Einars Hjálmarssonar föðurbróðurs Hjálmars

Hjálmar Vilhelm.

Sjötta sætið í heildarstigakeppninni

Stigasöfnunin gekk vel en lið HSK-Selfoss varð í 6. sæti í stigakeppninni af sjö liðum. Það var ansi mjótt á mununum en HSK-Selfoss var með einu stigi meira en lið Ármanns og fjórum stigum minna en sameiginlegt lið Fjölnis/UFA. Verður gaman að fylgjast með þessu unga og skemmtilega liði þróast á næstu árum. Þau stóðu sig mjög vel í keppni við þau allra bestu, einnig er mikill styrkur í því að hafa kempur eins og Fjólu Signýju Hannesdóttur sem er nýbyrjuð að æfa aftur og Kristinn Þór í liðinu. Eins vantaði liðinu tvo af sínum allra sterkustu keppendum en þau Eva María Baldursdóttir og Örn Davíðsson áttu hvorugt heimangengt að þessu sinni.

Framtíðin er svo sannarlega björt í frjálsum.

HSK/Selfoss

Nýjar fréttir