Kátir dagar og Flóafár voru haldnir í FSu í lok liðinnar viku 1. til 3. mars og tókust einstaklega vel. Skipulag var frábært og þátttaka nemenda og starfsmanna skólans mjög góð og mikið líf og sköpun, gleði og gaman í öllum bygginum skólans, Odda, Hamri og Iðu. Í Flóafári fær hvert lið sérstakt heimasvæði til að skreyta og síðan keppa nemendur í þrautum út um allan skóla sem kennarar hafa útbúið. Hugmyndaauðgi liðanna í útliti og skipulagningu heimasvæða var mikil að venju og þrautir kennaranna ekki síðri að gæðum og gamansemi. Flóafár er árviss atburður á vorönn og hefur verið haldið frá vordögum árið 1998 og uppskeran mikil. Má taka undir orð eins kennarans sem mælti á þá leiða að nú væri tími til kominn að Flóafár fengi fálkaorðu.
Fimm lið voru skráð til leiks að þessu sinni og fá þau þrjár vikur til að undirbúa þema og skipuleggja sig. Þau nefndust Fire Fighters, Miðaldabandalagið, James Bond, Love Island og Mexíkó. Svo fór að Fire Fighters eða Slökkviliðið sigraði í stigakeppninni en einnig voru veitt sérstök verðlaun fyrir árangur í búningagerð, herópum, borðalagningu og heimasvæði hvers liðs. Starfsmenn skólans leggja mikið á sig í Flóafári við undirbúning og íklæðast skemmtilegum búningum.
jöz