11.1 C
Selfoss

Kóreskt bbq lamb rack

Vinsælast

Björn Sigurbjörnsson er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Bestu þakkir á Arnar vin minn fyrir þessa áskorun. Ég hef nú talsverðan áhuga á að elda og á undanförnum árum hefur stefnan legið meira og meira í austurveg. Skemmtilegast finnst mér bæði að elda og borða kóreanskan mat. Þar fær maður yfirleitt bragðmikinn mat sem er litríkur og ekki svo þungur í maga. Ég hef mest verið að vinna með 3-4 mismunandi rétti en uppáhaldið sem ég ætla að bera á borð fyrir ykkur er kóreanskt bbq lamb rack.

Innihald:

 • 2 tsk Gochujang (kóreanskt chilli krem)
 • 6 hvítlauksrif, pressuð
 • ¼ bolli af niðurskornum vorlauk, bara hvíti og ljósgræni hluti lauksins
 • 1 ½ msk púðursykur
 • 3 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • 1 msk sesamolía
 • ¼ bolli sojasósa
 • 1 tsk salt
 • 2 lambarif (lamb racks) ca 500g hvort (french trimmað)

Aðferð:

 1. Blandið saman gochujang, hvítlauk, vorlauk, púðursykri, hrísgrjónaediki, sesamolíu, sojasósu og salti í skál. Hrærið marineringuna vel eða þar til púðursykurinn er búinn að leysast upp.
 2. Skerið aukafitu af lambinu. Skerið ca cm djúpan skurð á milli hvers rifbeins, ekki skera ofan í lundina. Setjið kjötið ofan í zip lock poka, setjið pokan í skál og hellið svo marineringunni ofan í pokann. Lokið pokanum og nuddið marineringunni í lambið. Látið marinerast í ísskáp í 8-24 tíma, mæli með að pokanum sé snúið 1-2 sinnum á meðan hann er í ísskápnum.
 3. Takið lambið úr pokanum, setjið á disk og setjið marineringuna aftur inn í ísskáp. Þurrkið feitu hliðina á lambinu þannig að hún sé ekki of blaut og bætið við smá salti.
 4. Forhitið grillið á 175°C. Snúið feitu hlið lambsins niður og grillið þar til það er orðið brúnt (ca 7-8 mín). Snúið lambinu og grillið þar til innri hiti lambsins nær 52°C (12-15 mín í viðbót). Setjið lambið á disk og látið hvíla í 10 mín.
 5. Setjið afgangin af marineringunni á pönnu við miðlungshita. Látið sjóða í henni og hrærið vel, þar til að marineringin er orðin að sósu (glaze). Penslið sósunni yfir lambið.

Það er svo hægt að leika sér með hvað maður borðar með þessu og hvað maður ber fram. Mér finnst skemmtilegast að borða vel soðin hrísgrjón og kimchi (kóreanskt hrásallat) með lambinu og strá smá sesamfræum og kóriander yfir. Svo má náttúrulega drekka það með sem fólki finnst gott að drekka með lambi en eftir að hafa horft á yfirgengilegt magn a kóreönskum þáttum og bíómyndum þá ímynda ég mér að það sé skemmtilegast að drekka kórenskt hrísgrjónavín sem heitir Soju (fæst hjá Kore veitingastöðunum í Reykjavík) og léttan lager.

Ég ætla að fá að skora á vélbyssukjaftinn og eilífðarvélina, aðstoðarþjálfara meistarflokks karla í knattspyrnu hjá Selfossi, Inga Rafn Ingibergsson.

Nýjar fréttir