10 C
Selfoss

Barneignir eru tilgangur lífs míns

Vinsælast

Mie Thousing er margt til lista lagt en hún flutti til Íslands frá Danmörku fyrir nokkrum árum síðan. Mie fann ástina hjá spánverjanum Diego á Hellu og eiga þau einn son saman, Mána. Mie er, meðal annars, lærð doula, nuddari, heilari og leikskólakennari.

„Á mínum 42 árum hef ég ferðast víða um heiminn í leit að stað sem ég gæti hugsað mér að setjast að á. Í mörg ár hélt ég að það yrði Nýja Sjáland, ég var svo heilluð af því. En fyrir um 20 árum síðan kom ég í fyrsta sinn til Íslands í eina viku í nóvember, ég varð alveg heilluð af landinu og kom aftur um 3 mánuðum seinna, í janúar. Þá varð ég innilokuð á hestabýli í snjóstormi og gat ekkert farið. Ég hugsaði með mér að þetta væri stórmagnað, ég elskaði þetta en svo spurði ég sjálfa mig: hvernig getur mér þótt þetta svona magnað?,“ segir Mie og hlær.

„Vá, ég er komin heim“

Mie hélt svo áfram að ferðast um heiminn. „Ég hætti að hugsa um Ísland og Nýja Sjáland komst á listann yfir mögulega staði til að festa rætur. Svo var það fyrir 6 árum síðan þegar ég var að vinna við heildrænar meðferðir ásamt læriföður mínum í þeim efnum, að ég stakk upp á því við hann að við færum til Íslands og myndum kenna Íslendingum þessar meðferðir. Hann tók vel í það og við ákváðum að láta á það reyna og héldum námskeið á Íslandi. Í fyrsta sinn sem við keyrðum frá Keflavík og inn á höfuðborgarsvæðið fann ég að ég var komin heim. Ég fann hvernig hárin á bakinu á mér risu, ég fékk gæsahúð um allt og hugsaði með mér, vá, ég er komin heim.“

„Mig langaði að heimsækja Ísland yfir sumartímann og þegar íslenskur kunningi sem sá um hestaþjálfun hafði samband við mig og bað mig að kenna sér heildræna meðferð á hestum stökk ég á tækifærið og flaug til Íslands. Hann fór meðal annars með mig á Hellu og þegar ég kom þangað fann ég samstundis mikla tengingu við staðinn, mér fannst Hella stórkostleg. Mér fannst þetta svo klikkað, Hella af öllum stöðum heillaði mig meira en nokkur annar staður, það var eitthvað sem dró mig þangað. Mér fannst ég eiga heima þar og ákvað að flytja,“ segir Mie.

Reiðarslag við heimkomuna

En þegar Mie kom heim eftir þessa afdrifaríku ferð til Íslands, fékk hún slæmar fréttir: „Ég greindist með krabbamein, Hoskin-eitlakrabbamein, sem setti allt úr skorðum og splundraði veruleikanum mínum og draumnum um að flytja til Íslands á þeim tímapunkti. Á þessum tíma bjó ég í Kaupmannahöfn, en fjölskyldan mín býr eins langt frá Kaupmannahöfn og mögulegt er, innan Danmerkur, svo það var hægara sagt en gert að ferðast á milli því ég þurfti að mæta í lyfjameðferð á fjórtán daga fresti. Ég var því mikið ein á meðan á þessu stóð. Í bataferlinu sótti ég heilandi námskeið sem vakti skilningarvit mín til heilunar. Það hjálpaði mér mikið, að láta höfuðið fylgja líkamanum í batanum, það var mjög stórt skref fyrir mig og hjálpaði mér að halda ró í storminum sem var allt um kring. Einu og hálfu ári seinna var ég laus við meinið og mánuði eftir að ég fékk grænt ljós frá læknunum mínum flutti ég til Íslands.“

Himnasending á Hellu

Fyrsta mánuðinn bjó Mie í Reykjavík hjá vinkonu sem hafði komið á námskeið til hennar. „Hún kom mér í samband við konu á Keldum sem var með herbergi til leigu, ég komst að því að það væri nálægt Hellu og hugsaði „fullkomið!“. Svo ég flutti þangað og mér leið strax eins og ég væri komin heim. Ég fór að vinna meira með hestunum og var líka með mennska viðskiptavini sem voru flestir í Reykjavík. Það varð samt svolítið þreytandi að þurfa að keyra á milli til að sinna þeim sem voru í Reykjavík því ég er ekkert mjög hrifin af því að keyra í snjó og hálku. Ég prófaði því að fara inn á leikskólann á Hellu einn daginn og spyrja hvort þar vantaði kennara. Leikskólastjórinn sagði að ég væri himnasending, það vantaði akkúrat kennara og ég hóf störf viku seinna. Ég byrjaði í 50% starfi svo ég gæti sinnt viðskiptavinum mínum samhliða starfinu en fljótlega ákvað ég að snúa mér einungis að kennslunni og setti hitt til hliðar, í bili allavega.“

Fjölskyldan, Diego, Mie og Máni.

„Það besta sem við hefðum getað eignast“

„Þarna hitti ég ástina í lífinu mínu, frá Spáni, á Hellu! Hellu af öllum stöðum. Og þá vissi ég hvað hafði dregið mig þangað, hann var þar. Diego vildi ekki eignast börn þegar við kynntumst, en ég sagði að ef hann vildi mig þá þýddi það að hann þyrfti að skipta um skoðun, ég þyrfti börn í líf mitt. Megintilgangur lífs míns finnst mér vera að verða ófrísk og eignast börn. Og í dag eigum við saman einn son og erum sammála um það að hann sé það besta sem við hefðum getað eignast. Hann hafði bara ekki fundið réttu manneskjuna til að eignast barn með fyrr en hann kynntist mér,“ segir Mie.

Vissi ekki hvort hún yrði ein alla fæðinguna

„Sem betur fer gekk allt upp og ég varð ófrísk í Covid. Hann er ekki Covid-barn, alls ekki, hann var mjög planaður og við vildum svo mikið eignast hann. En það var svo margt sem var svo óhugnanlegt við þetta ferli fyrir mig, ég þurfti að gera allt ein vegna samkomutakmarkana, ég hafði engan með mér. Diego beið úti í bíl á meðan ég fór í allar skoðanir og þegar ég var komin í virka fæðingu þurfti hann að sitja í bílnum og bíða eftir grænu ljósi frá ljósmæðrunum, við vorum ekki viss um að hann fengi að koma inn yfir höfuð en eftir heilan klukkutíma ein í fæðingu fékk hann loks að koma inn. Þetta voru svakalega streituvaldandi aðstæður. Ég hefði sjálf viljað hafa doulu hjá mér en ég athugaði það ekki einu sinni því ég var ekki viss um að Diego mætti vera með mér í fæðingunni“

Doula er stuðningsasaðili fyrir barnshafandi foreldri fyrir, í og eftir fæðingu og styður við þarfir þess og óskir í tengslum við hana. Hún aðstoðar verðandi fjölskyldu við að undirbúa sig fyrir fæðingu og fylgir þeim í gegnum allt fæðingarferlið. Starf doulu er styðjandi en doula styður við foreldrana og er þeim innan handar til þess að þau upplifi eins ánægjulega fæðingu og hægt er. Hún veitir stuðning, fræðslu og stendur vaktina samfellt. Samstarf doulu og verðandi foreldra er fyrst og fremst byggt á trausti og virðingu sem myndast á meðgöngunni.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að stuðningur doulu í fæðingu hefur margvíslega ávinninga en árið 2013 voru teknar saman 23 rannsóknir um doulur þar sem 15 þúsund konur voru í úrtakinu og sýndu rannsóknirnar allar fram á jákvæðan ávinning af því að vera með doulu.

Doula er með parinu í gegnum allt fæðingarferlið, frá upphafi til enda og tekur ekki vaktaskipti eða vaktahlé. Fyrir vikið er hægt að ganga úr skugga um að það sé tryggt að minnsta kosti ein manneskja fylgi manni og vaktaskipti annarra starfsmanna sem koma að fæðingarferlinu verða ekki eins áberandi. Hún er með parinu í fæðingunni á þeirra forsendum og fylgir þeirra óskum. Doula tekur enga klíníska ábyrgð, hún er ekki læknismenntuð og kemur aldrei í stað ljósmóður.

Fastur punktur sem hægt er að treysta á

„Ég vildi að það væri mögulegt að fá stuðning í öllum fæðingum, þetta geta verið svo streituvaldandi aðstæður, maður er svo berskjaldaður og hefur enga stjórn á því sem er að gerast í líkamanum manns. Mér finnst að allir foreldrar í fæðingu ættu að hafa einhvern sem er til staðar fyrir þau allan tímann, fastur punktur sem hægt er að treysta á. Sumir fæðingarfélagar ráða illa við þessar aðstæður og vita ekkert hvað þeir geta gert, þar getur doula komið inn og leiðbeint og hjálpað. Við getum notað Rebozo, mexikóskt nuddsjal, sem getur hjálpað barninu að komast neðar í grindina og linað verki, verið til þjónustu reiðubúnar fyrir foreldrana, auk þess hef ég mikið fram að færa sem nuddari en ég vann mikið við meðgöngunudd þegar ég bjó í Danmörku.“

Mæðginin Mie og Máni.

Skrifað í skýin

„Þegar ég var á síðasta stigi fæðingar varð tilgangur lífsins svo skýr, hvað var mikilvægt fyrir mig og hvað ég vildi gera. Ég fann það þá að ég vildi verða doula, það var skrifað í skýin. Ég vil hjálpa fólki í fæðingu. Ég vil hjálpa til dæmis útlendingum, fólki sem á ekki stóra fjölskyldu, einstökum mæðrum, þeim sem eiga engan að sem þeim þykir nógu náinn þeim til að vera viðstaddur fæðingu og auðvitað hverjum sem gæti viljað minn stuðning. Því þetta er mjög viðkvæm stund, þú vilt ekkert að hver sem er sé viðstaddur á þessum magnaða tímapunkti í lífi þínu. Ég vil að öllum standi til boða að hafa einhvern eins og mig til að lyfta þeim upp, hjálpa þeim og leiðbeina. Sérstaklega fyrir útlendinga, að einhver sé á staðnum sem getur útskýrt hvað er að gerast, heilbrigðisstarfsfólk er þarna til að huga að líkamlegri heilsu móður og barns en doula getur útskýrt fyrir foreldrum í rólegheitum á mannamáli hvers vegna hlutirnir eru svona og hinsegin og hvað er í gangi þá og þegar á meðan læknar og ljósmæður setja krafta sína í að koma barninu heilu á húfi í heiminn. Ég elska ljósmæður og þykir starf þeirra svo fagmannlegt og óeigingjarnt. Doula gegnir ekki sama hlutverki og þær og kemur ekki í stað fæðingarfélaga, sé hann á annað borð til staðar. Doula getur tekið skref út frá aðstæðunum og sér þær á annan hátt en foreldrarnir, hún er bara þarna fyrir þau. Til að þjónusta allar þeirra þarfir. Leiðbeina fæðingarfélaganum um hvað gæti verið gott að gera í ýmsum aðstæðum og leysa hann af þegar hann verður þreyttur eða á erfitt, því það getur auðvitað verið mjög erfitt að vita ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga þegar móðirin er að ganga í gegnum fæðingu,“ segir Mie.

Minna adrenalín og meira oxýtósín

Þá segir Mie að hún telji að óvissan um hlutverk doulu fæli fólk gjarnan frá hugmyndinni: „Ég held að oft þegar fólk vill alls ekki hafa doulu sé það vegna óvissunnar um hvað hún sé að fara að gera þarna. Til hvers? Það er mér svo mikilvægt að fólk viti að ég sé bara þarna til að hjálpa þeim og þjónusta allar þeirra þarfir. Á árum áður komu heilu þorpin saman að fæðingu hvers barns. Ég vil hjálpa móður að finna innri styrk sinn, finna ótrúlega máttinn við barnsfæðingu. Styrkurinn frá öðrum sem hafa gengið í gegnum fæðingu getur verið svo magnaður, að hafa einhvern hjá sér sem þekkir sársaukann og skilur hvað móðirin er að ganga í gegnum getur hjálpað henni að finna ró í aðstæðunum og minnkað streitu, því rólegri sem móðirin er, því betra. Ef meðgangan hefur verið erfið og ef móðirin er stressuð og neikvæð, eru meiri líkur á að fæðingin gangi erfiðlega, þá framleiðir hún röng hormón. Þar kem ég inn til að hjálpa til við að framleiða réttu hormónin því við þurfum rosalega mikið af ástarhormónum, oxýtósín, og ekki of mikið af adrenalíni til þess að fæðingin gangi sem best.“

Miklu meira en áhugamál

Mie hefur rannsakað og kynnt sér mannslíkamann í mörg ár. „Ég hef sem fyrr segir unnið með heildrænar meðferðir og auðvitað nuddið. Þetta hefur farið út fyrir að vera áhugamál, þetta hefur bara verið það sem líf mitt hefur snúist um, að læra á mannslíkamann. Ég á þar af leiðandi auðvelt með að finna þrýstipunkta sem geta hjálpað til við að róa taugarnar og slaka á. En mín þekking úr nuddinu, því að stunda mikið af kínverskum lækningum og þekking á því hversu stórkostlegar breytingar eiga sér stað í líkamanum á meðgöngu getur vissulega komið sér vel fyrir starf mitt sem Doula. Ég vil geta miðlað minni reynslu og þekkingu áfram til þess að hjálpa öðrum að eiga ánægjulega og góða fæðingu,“ segir Mie að lokum.

Áhugasöm geta smellt hér til að komast í samband við hina ljúfu Mie.

HGL

Nýjar fréttir