11.7 C
Selfoss

Pabbi sagði mér oft sögur úr Njálu

Vinsælast

…Segir lestrarhesturinn Margrét Magnúsdóttir

Margrét Magnúsdóttir er fædd í Reykjavík en flutti á fyrsta árinu að Bakkavelli í Hvolhreppi ásamt foreldrum mínum. Þar ólst hún upp til 16 ára aldurs og er elst af sjö systkinum. Margrét hefur búið á Selfossi síðan 2005 eftir að hafa átt heima í Reykjavík, Stokkseyri og Þorlákshöfn á mismunandi tímum. Hún er garðyrkjufræðingur að mennt og hefur starfað við það í 35 ár en einnig sinnt alls konar störfum á Selfossi á veturna meðfram rekstri gróðrarstöðvarinnar Heiðarblóma á Stokkseyri. Undanfarin ár hefur hún unnið á Vinnu- og hæfingarstöð Suðurlands – VISS og segist ekki geta endað starfsævina á betri vinnustað. Margrét er gift Einari B. Steinmóðssyni og á tvær dætur og tvö stjúpbörn,

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég var búin að leita lengi að gömlu skólaljóðunum mínum en fann þau ekki. Vinnufélagi minn rakst síðan á þau á nytjamarkaði og gaf mér, svo ég er að glugga í þetta eðalrit en þar eru mörg af mínum uppáhaldsljóðum og teikningar Halldórs Péturssonar glæða ljóðin lífi. Bókin er á náttborðinu ásamt Táningabók – ævisögu eftir Sigurð Pálsson og Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert.

Hvernig bækur höfða helst til þín?

Ég les alls konar bækur skáldsögur, fræðibækur, spennusögur en er samt ekki hrifin af glæpasögum þar sem óhugnanlegum glæpum er lýst í smáatriðum. Er meira fyrir spennubækur eftir Arnald Indriðason og Agöthu Christie. Svo hrífst ég af öllu sem ég kemst yfir um plöntur og lífríkið almennt. Til dæmis fékk ég þrjú eintök af íslensku myndskreyttu Flórunni hans Jóns Hlíðbergs í jólagjöf. Þannig að fólkið mitt veit alveg hvar áhugasvið mitt liggur. Svo þykir mér gaman að lesa gamlar frásagnir af lífsbaráttunni í okkar harðbýla landi, ekki síst ef þær frásagnir gerast á heimaslóðum mínum í Rangárvallasýslu.

Varstu alin upp við bóklestur?

Föðuramma mín las mikið fyrir mig þegar ég var barn. Hún bjó á heimilinu og hvatti mig einnig til að lesa ýmsar bækur eftir að ég varð læs. Einng las mamma fyrir mig og sagði mér sögur úr vesturbænum í Reykjavík, en hún ólst upp á Bakkastíg. Pabbi sagði mér sögur þá helst úr Njálu og frá sinni æsku á Velli í Hvolhreppi en Njála hefst einmitt með frásögn af Merði sem bjó á Velli. Þegar ég byrjaði sjálf að lesa las ég allt sem ég komst yfir heima og var ekki mjög gömul þegar ég las Önnu Kareninu eftir Leo Tolstoy. Uppáhalds bækur mínar sem barn voru eftir Jennu og Hreiðar Stefánsson, sögurnar hennar Astrid Lindgren, íslenskar þjóðsögur og Njála. Sem unglingur las ég mikið af ástarsögum sem allar enduðu auðvitað vel. Ég las einnig verk Laxness og Þórbergs og bara allt sem ég komst í. Þá var bókasafn í Hvolsskóla sem var mikið notað í minni fjölskyldu.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Þegar ég var yngri las ég alltaf áður en ég fór að sofa og gat oft ekki lagt spennandi bækur frá mér fyrr en ég var búin með þær. Ég kom oft illa sofin í skólann eftir næturlesturinn. Í dag les ég meira í skorpum. Hef verið latari við að lesa í seinni tíð, því nú er hægt að ná í allt og hlusta í gegnum veraldarvefinn. En það er ekki alveg sama upplifunin. Það jafnast ekkert á við að lesa góða bók.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Ég á marga uppáhalds höfunda íslenska og erlenda og get ekki gert upp á milli þeirra. Uppáhaldsbækurnar mínar eru Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson, Salka Valka eftir Kiljan og Grænn varstu dalur eftir Richard LLewellyn.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já margar hafa gert það. Spennusögur í anda Agöthu Christie. Gyðjan og Uxinn eftir Kristmann Guðmundsson var bók sem erfitt var að leggja frá sér á sínum tíma og var meðal annars kveikjan að því að ég ferðaðist til Krítar í fyrsta sinn. Ég tel að Kristmann Guðmundsson hafi aldrei verið metinn að verðleikum sem höfundur.

En að lokum Margrét, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég hef eins og örugglega margir gengið með rithöfundinn í maganum. Myndi skrifa
skáldsögur byggðar á allskonar raunverulegum atburðum og svo kannski smásögur eða jafnvel örsögur.

_____________________________________________________
Umsjón með Lestrarhestinum hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir