11.1 C
Selfoss

Spicy BBQ-svínarif með engifer og eldpipar

Vinsælast

Björgvin Rúnar Valentínusson er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Ég hef beðið í yfir áratug eftir að vera sunnlenski matgæðingurinn hjá Dagskránni og loksins er sá draumur að rætast. Ég mun gera mitt allra besta svo að Sunnlendingar verði ekki fyrir vonbrigðum.

Ég hef ákveðið að deila með ykkur uppáhalds svínarifsuppskriftinni minni. Þetta er uppskrift sem hittir alltaf beint í mark á mínu heimili.

Ath. ég geri alltaf tvöfaldan skammt af BBQ-sósunni.

Spicy BBQ-svínarif með engifer og eldpipar

 • 1,5 kg „baby back“ svínarif (ég kaupi þau alltaf í Costco)

Marinering

 • 5 msk. hlynsýróp
 • 2 tsk. chipotle chilli-mauk
 • 1 msk. engiferduft
 • 1 msk. Worcestershire-sósa
 • 1 ½ tsk. paprikukrydd
 • 1 ½ tsk. cumin (ekki kúmen)
 • 1 tsk. kínverskt five-spice
 • ½ tsk. múskat

BBQ-sósa

 • 4 cm engifer
 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • 125 ml tómatsósa
 • 60 ml viský eða dökkt romm
 • 1 msk. Worcestershire-sósa
 • 3 msk. eplaedik
 • 1 tsk. Dijon-sinnep
 • ½ tsk. chilli flögur
 • 50 g púðursykur

Byrjið á að fjarlægja himnuna á bakhlið rifjanna. Best er að nota skeið og eldhúspappír til að fjarlægja himnuna, þar sem hún getur verið mjög sleip.  Þurrkið rifið vel með eldhúspappír.

Blandið saman öllum hráefnunum fyrir marineringuna og smyrjið henni vel á rifin. Vefjið síðan rifjunum vel í plastfilmu og geymið inn í ískáp í minnst 5 klst., helst yfir nótt.

Áður er rifin eru elduð er gott að leyfa marineringunni að dropa af rifjunum og þeim leyft að ná stofuhita. Síðan er þeim pakkað inn í extra sterkan álpappír, þannig að safinn af rifjunum leki ekki í burtu. Rifin eru síðan elduð í ofni eða á óbeinum hita á grilli á 180°C í 2 klst. eða þangað til kjötið er byrjað að falla af beinunum.

Gott er að byrja á sósunni þegar rifin eiga 30-40 mín. eftir að eldun. Byrjið á rífa engiferinn og hvítlaukinn í pott. Blandið síðan restinni af hráefnunum ásamt 80 ml af vatni í pott og leyfið sósunni að malla í 20-30 mín. eða þangað til hún er orðin hæfilega þykk.

Þegar rifin eru komin úr ofninum eru þau tekin úr álpappírinum, lögð á grind og BBQ-sósan borin á þau. Næst eru rifin elduð í 30-40 mín. í viðbót. Gott er að bæta alltaf öðru lagi af sósu yfir rifin á 10 mín. fresti.

Hvíldu rifin í 5 mín. áður en þau eru borin fram.

Mér finnst gott að bera rifin fram með heimagerðu hrásalati og sætkartöflufrönskum.

Verði ykkur að góðu!


Ég skora á tengdason Selfoss, hann Arnar Guðjónsson, að koma með uppskrift í næstu viku.

Nýjar fréttir