7.3 C
Selfoss

Metnaðarfull markmið í uppbyggingu húsnæðis í Hveragerði

Vinsælast

Njörður Sigurðsson.

Húsnæðisáætlun Hveragerðis var samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundi 9. febrúar síðastliðinn, og er hún sú fyrsta sem núverandi meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar leggur fram. Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að „[h]lutverk húsnæðisáætlana er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma. Megin markmið með gerð húsnæðisáætlana er því að stuðla að auknu húsnæðisöryggi heimilanna“. Í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar 2023, sem nær til ársins 2033, er að finna greiningu á stöðu í húsnæðismálum í sveitarfélaginu og markmið um uppbyggingu til næstu tíu ára.

Fjölbreytt búsetuúrræði

Í málefnasamningi Okkar Hveragerðis og Framsóknar kemur fram að ein af megináherslumálum kjörtímabilsins verði að „[t]ryggja fjölbreytt búsetuúrræði í Hveragerði, þ.m.t. að stuðla að fjölgun félagslegs leiguhúsnæðis og leiguíbúða í gegnum íbúðarfélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða“. Þessi áherslumál er nú að finna í nýrri húsnæðisáætlun Hveragerðis. Í henni eru metnaðarfull markmið um fjölbreytt húsnæðisform svo að íbúar Hveragerðis geti haft kost á öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði, og hvort sem fólk þurfi á stuðningi að halda með sín húsnæðismál eða ekki. Húsnæðisáætlun Hveragerðis nær því yfir húsnæðisþarfir allra íbúa, óháð eignarformi, stærð og gæðum húsnæðis.

Félagslegt leiguhúsnæði

Sem stendur leggur sveitarfélagið fram það markmið að félagslegt leiguhúsnæði aukist um 100% á ári frá því sem áður var. Þetta er há tala, enda verður að hafa í huga að nánast ekkert hefur verið gert í þessum málaflokki undanfarin ár. Aukningin frá því að kaupa enga félagslega leiguíbúð, eins og undanfarin ár, í að kaupa eina á ári er 100%. Það er því þörf á verulegu átaki í að fjölga félagslegu leiguhúsnæði í Hveragerði enda hefur sveitarfélagið staðið sig mjög illa í að sinna þessu lögbundna hlutverki. Það er þó rétt að taka fram að vegna vanrækslu í þessum málaflokki í meiri en áratug mun taka tíma að byggja upp félagslegt húsnæði í Hveragerði svo að staðan verði svipuð og í öðrum sveitarfélögum.

Námsmannaíbúðir

Í nýrri húsnæðisáætlun er í fyrsta skipti að finna markmið um uppbyggingu námsmannaíbúða í sveitarfélaginu. Farið verður af stað með að kanna áhuga byggingarfélaga um byggingu námsmannaíbúða. Líklegt er að slíkar íbúðir verði eftirsóttar meðal námsmanna með fjölskyldur, og námsmanna sem eiga rætur í Hveragerði og vilja búa hér áfram þó nám sé sótt til höfuðborgarsvæðisins.

Fleiri leiguíbúðir

Sveitarfélagið er auk þess opið fyrir umsóknum íbúðabygginga óhagnaðardrifinna leigu- og búseturéttarfélaga sem og vegna umsókna íbúða sem fjármagnaðar eru með hlutdeildarlánum. Á síðasta ári voru teknar í notkun tíu íbúðir hjá Bjargi, sem er íbúðafélag ASÍ og BSRB, í Langahrauni í Hveragerði. Þörf er á fleiri slíkum íbúðum í sveitarfélaginu og eru bæjaryfirvöld tilbúin í að vinna að þeim málum í samvinnu við slík íbúðafélög.

Sókn í húsnæðismálum

Húsnæðisöryggi er eitt stærsta velferðarmál samfélagsins og þar eru sveitarfélög stefnumarkandi aðili. Með þeirri húsnæðisáætlun sem hefur verið samþykkt í bæjarstjórn Hveragerðis er sveitarfélagið að leggja sitt af mörkum til að ná rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða og hlutfall íbúða á viðráðanlegu verði.

Njörður Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Nýjar fréttir