11.1 C
Selfoss

Árangursríkur þrískólafundur

Vinsælast

Þrískólafundur er það þegar allir starfsmenn framhaldsskólanna Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskóla Suðurnesja hittast og bera saman bækur sínar. Þetta eru gagnkvæmar og gefandi samkomur haldnar á tveggja ára fresti. Að þessu sinni var hist á Akranesi miðvikudaginn 1. febrúar. Lagt var af stað með rútu frá FSu klukkan átta að morgni og komið aftur heim klukkan fjögur.

Fundurinn byrjaði á sameiginlegum morgunverði og að honum loknum flutti Svali H. Björgvinsson erindi um mikilvægi þess að skapa menningu og auka samvinnu innan stofnana (og fyrirtækja) sem byggja á valddreifingu og leiða til árangurs. Að því loknu var fundurinn hólfaður niður í smærri hópa. Stjórnendur (og millistjórnendur) hittust og báru saman bækur sínar, kennarar einstakra deilda bóknáms, verknáms, listnáms og sérnáms, námsráðgjafar, bókasafnsfræðingar og starfsmenn mötuneyta svo nokkuð sé nefnt. Afar gefandi og árangursríkar samræður innan hvers hóps eins og einn kennarinn orðaði það og fullyrti: „Mikilvægið felst í því að hittast, heyra í kollegum sínum og deila hugmyndum.”

Eftir hádegishlé flutti leikarinn Jóel Sæmundsson uppistand sem hann kallaði Framtíð menntamála á Íslandi. Mjög skemmtilegt og fyndið erindi þar sem sundurleysið í málflutningi fyrirlesarans undir yfirheitinu Future var algert. Eins og áður sagði er þrískólafundur haldin á tveggja ára fresti. Síðast fór hann fram í FSu árið 2020 og skömmu síðar var öllu skellt í lás af kórónuveirunni. Núna er stefnt að því að næsti fundur verði haldinn í Keflavík að tveimur árum liðnum.

Jöz

Nýjar fréttir