11.1 C
Selfoss

Um rafmagn og umhverfisvottanir

Vinsælast

Mikil umræða hefur verið um rafmagn og hvort það er umhverfisvænt eða ekki. Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum varðandi þetta. Okkur hefur fundist þessi umræða vera ruglingsleg og að fjölmiðlar hafi ekki náð að skýra þetta nógu vel fyrir almenningi í landinu. Vegna þessarar umræðu um upprunavottanir á rafmagni og sölu upprunavottorða viljum við koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri og vonum að það skýri betur stöðu sölufyrirtækja rafmagns í þessum efnum.

Orka heimilanna er raforkusali og kaupir rafmagn af framleiðendum rafmagns og selur viðskiptavinum sínum. Það rafmagn sem Orka heimilanna kaupir og selur er framleitt með umhverfisvænum hætti hér á á landi og það er ekki búið að aðskilja umhverfisvæna hluta orkunnar frá okkar rafmagni. Þannig koma allir okkar viðskiptavinir til með að halda áfram að fá umhverfisvæna græna orku og ekkert hefur breyst frá því sem áður var.

Sölufyrirtæki raforku hafa ekki val um hvort þau taki þátt í kerfi um upprunavottorð eða ekki. Sölufyrirtæki hafa hins vegar val um það hvernig þau spila úr þeim möguleikum sem kerfið býður upp á. Þeir möguleikar sem standa sölufyrirtækjum til boða eru þrír. Sölufyrirtæki getur keypt orku með upprunaábyrgðum og selt áfram til viðskiptavina. Viðskiptavinir fá þá umhverfisvottaða orku og allt er óbreytt frá því sem verið hefur hér á Íslandi. Möguleiki tvö er að sölufyrirtæki getur keypt rafmagn án upprunavottorða og greiða þá lægra verð fyrir orkuna. Möguleiki þrjú er að sölufyrirtæki kaupi raforku með umhverfisvottunum en selur sjálft vottorðin annað. Í tilfellum tvö og þrjú er staða raforkukaupenda á Íslandi breytt frá því sem áður var og fá viðskiptavinir þá óvottaða gráa orku. Viðskiptavinir raforkusölufyrirtækja sem fá óvottaða orku taka svo á móti óhreinni orku frá Evrópu. Þetta er vitaskuld allt bókhaldslegt en í þessu tilfelli eru það samt fyrirtæki og fjölskyldur í Evrópu sem eru að borga fyrir að fá upprunavottorðin og eru í góðri trú um að vera með hreina orku þrátt fyrir að orkan sem þau raunverulega nota sé framleidd með óumhverfisvænum hætti. Þannig telja þessi fyrirtæki og fjölskyldur að þau séu að haga sér á ábyrgan hátt og séu að gera góða hluti fyrir umhverfið. Til þess að umhverfisvæni hlutinn sé ekki seldur tvisvar taka fyrirtæki og heimili á Íslandi, sem kaupa óvottaða orku, á móti óhreina hluta orkunnar sem er mengun vegna framleiðslu rafmagns með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Samkvæmt upplýsingasíðu Orkustofnunar hafa 4 af 8 sölufyrirtækjum raforku fengið vottun á að hafa selt sínum viðskiptavinum umhverfisvæna, vottaða orku árið 2021. Það eru svo fjögur fyrirtæki sem hafa ekki fengið þessa vottun og hafa þá selt viðskiptavinum sínum óumhverfisvæna orku frá upphafi árs 2021. Það þýðir að fyrirtæki og heimili sem kaupa af þeim orku hafa verið að fá óhreina orku. Spurning er hvort viðskiptavinir þessara sölufyrirtækja hafi fengið upplýsingar um uppruna orkunnar sem þeir hafa fengið. Það hvílir rík skilda á sölufyrirtækjum rafmagns að láta viðskiptavini sína vita um uppruna rafmagnsins sem þeir selja viðskiptavinum sínum. Orkustofnun hefur svo eftirlit með því að sölufyrirtæki uppfylli upplýsingaskildu sína gagnvart viðskiptavinum. Hvort sem viðskiptavinir hafi verið látnir vita eða ekki, þá teljum við að notendur sem fá óvottaða gráa orku hafi í fæstum tilfellum vitað af því. Við skoðun á heimasíðum sölufyrirtækjanna er ekki að sjá að viðskiptavinum sé umbunað fyrir að það sé búið að selja umhverfisvæna hlutann frá orkunni. Miðað við þau verð sem hægt er að fá fyrir umhverfisvottanir í dag þá ætti það að muna töluverðu í verði til notenda.

Neytendur eiga rétt á að fá upplýsingar um uppruna þeirrar raforku sem þeir kaupa frá sölufyrirtækjum. Við hvetjum neytendur til að vera upplýsta og leita eftir upplýsingum um uppruna þeirrar orku sem þeir eru að kaupa hjá sínum söluaðila.

Orka heimilanna ákvað að kaupa umhverfisvæna orku fyrir árið 2023 eins og önnur ár. Við töldum okkur ekki geta staðið á öðru. Geri sölufyrirtæki það ekki er um ákveðin vörusvik að ræða því ef raforka er seld án upprunavottorða þarf að kynna það mjög vel fyrir viðskiptavinum og viðskiptavinurinn þarf að ákveða sjálfur að kaupa óumhverfisvæna orku. Orka á Íslandi er umhverfisvæn og þess vegna er það skilda söluaðila að upplýsa viðskiptavini sína um uppruna orkunnar ef sú orka sem þeir selja er ekki umhverfisvæn.

Starfsfólk Orku heimilanna er ávallt tilbúið að ræða þessi mál við viðskiptavini og aðra og það er vilji okkar og hagur að neytendur skilji vel allar hliðar raforkumarkaðarins.

Nýjar fréttir